Er tímabært að stytta grunnskólanám?
Það kunna að felast verðmæt tækifæri í því að stytta grunnskólanám á Íslandi um eitt ár. Það liggur fyrir að gæðum í skólastarfi hefur að einhverju leyti hrakað og það er því brýnt að leita lausna til að bregðast við því. Að mati OECD skiptir fjöldi kennslustunda ekki höfuðmáli þegar gæði náms eru annars vegar, heldur er aðalatriði hvernig tími nemenda er nýttur, hvað þeir læra o.s.frv.
Að sama skapi blasir við nýliðunarvandi meðal menntaðra kennara, auk þess sem nokkuð stór hópur kennara hverfur brátt af vinnumarkaði.
Með vandaðri framkvæmd og að vel athuguðu máli kynni stytting grunnskólanáms að bæta gæði náms, koma til móts við nýliðunarvanda í kennarastétt, bæta starfskjör þeirra og starfsaðstæður og veita skólum aukið svigrúm til að koma til móts við ólíkar þarfir nemenda.
Innan grunnskólanna fer fram gríðarlega mikilvægur undirbúningur einstaklinga til að takast á við framtíð sína.
Stytting námstíma felur í sér tækifæri
Árið 2002 ályktuðu Samtök atvinnulífsins á þá leið að grunn- og framhaldsskólastig skyldu hvort um sig stytt um eitt ár. Skömmu áður hafði komið út skýrsla sem sýndi fram á umtalsverðan þjóðhagslegan ávinning af styttingu beggja skólastiga. Í skýrslu McKinsey frá árinu 2012 var jafnframt bent á að ýmis tækifæri væru fólgin í því að stytta námstíma í íslenska menntakerfinu.
15 árum síðar hefur stytting framhaldsskólans, öllu heilli, gengið eftir. Grunnskólastigið er þó enn óbreytt, a.m.k. hvað tímalengd varðar, og umræða um styttingu þess hefur ekki verið mjög hávær þó hún skjóti annað slagið upp kollinum.
Búið að sá fræjum styttingar
Fyrsta skrefið í átt að styttingu grunnskólans var tekið á kjörtímabilinu 2013-2016. Með breytingu á aðalnámskrá grunnskóla voru tekin upp rafræn könnunarpróf sem voru samhliða færð úr 10. bekk og niður í 9. bekk. Jafnframt var skilyrðum fyrir því að nemendur gætu sleppt við 10. bekk breytt.
Að því gefnu að nemandi í níunda bekk hafi náð góðum tökum á námsefni 10. bekkjar, samkvæmt niðurstöðum úr rafrænu könnunarprófi, gefst viðkomandi færi á að brautskrást þá þegar, svo lengi sem nægur félagslegur þroski sé til staðar og aðstæður leyfi að öðru leyti.
Með þessu hefur grunnskólinn í raun verið styttur um heilt ár í tilfelli framúrskarandi nemenda. Nemendur sem þurfa aukinn undirbúning útskrifast við lok 10. bekkjar, eins og verið hefur.
Samkvæmt tölum frá Menntamálastofnun virðist hið nýja fyrirkomulag leiða til aukningar á innritun beint úr 9. bekk í framhaldsskóla, en 60 nemendur innrituðust að hausti 2017 borið saman við 40 nemendur haustið 2016.
Gæðum hefur hrakað í skólastarfi
Það er því miður ýmislegt sem bendir til þess að dregið hafi úr gæðum náms á grunnskólastigi hérlendis. Þannig hefur árangri íslenskra nemenda í PISA prófum hrakað talsvert síðan árið 2003, sérstaklega þegar kemur að lestri og stærðfræði. Þær greinar eru sérstaklega mikilvægar, því þær eru grundvöllur þess að árangur náist í öðrum greinum.
Til viðbótar við dalandi árangur nemenda á prófum eru ýmis önnur vandamál sem steðja að grunnskólastiginu. Fyrirsjáanlegur skortur er á kennurum, auk þess sem mikið ójafnvægi er á milli kyns og fræðilegs bakgrunns þeirra sem eru nýlega útskrifaðir. Margir kennarar nálgast eftirlaunaaldur og stutt er í umtalsvert brotthvarf reyndra kennara úr stéttinni. Verkefnin á grunnskólastiginu eru því ærin og það er tilefni til að velta fyrir sér aðgerðum sem geta komið til móts við þessi vandamál og aukið gæði í skólastarfinu.
Það er þó rétt að geta þess að skólastarf snýst ekki eingöngu um einkunnir nemenda á prófum. Í skólanum er ekki síður mikilvægt að móta þrautseiga og skapandi nemendur sem öðlast félagslegan þroska og geta sýnt frumkvæði og sjálfstæði. Gæði náms eru því samblanda af mörgum ólíkum þáttum. Engu að síður hlýtur það að vera markmið að gera vel í öllum þáttum skólastarfsins, bæði þeim sem eru auðmælanlegir og þeim sem eru matskenndari.
Lengd náms er ekki aðalatriði
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur fjöldi kennsludaga á Íslandi haldist óbreyttur frá seinustu aldamótum, að undanskildum verkfallsárum. Skóladagar eru 170 á ári og nemendur í grunnskólum eru því ekki í skóla 195 daga ársins, en þar á meðal eru helgar-, próf- og helgidagar. Íslenskir grunnskólanemar eru því nokkuð færri daga ársins í skólanum en jafnaldrar þeirra á hinum Norðurlöndunum.
Aftur á móti er vert að hafa í huga að íslenskir nemendur eru þrátt fyrir þetta u.þ.b. jafnmikið í grunnskóla og jafnaldrar þeirra innan OECD í klukkustundum talið, þrátt fyrir að vera ári lengur að ljúka grunnskólagöngunni.[1] Það er mikill munur á því innan OECD hve margir klukkutímar eru að baki brautskráningu og sem dæmi má nefna að finnsk börn ljúka grunnskóla með 6.327 klukkustundir að baki en dönsk börn með 10.960 klukkustundir að baki. Að mati OECD skiptir fjöldi kennslustunda því ekki höfuðmáli þegar gæði náms eru annars vegar, heldur er aðalatriði hvernig tími nemenda er nýttur, hvað þeir læra o.s.frv.[2]
Það eru því ótvírætt tækifæri til þess að stytta grunnskólagöngu íslenskra nemenda og á sama tíma auka gæði námsins, enda veitir vel framkvæmd stytting kjörin tækifæri til þess. Með því að fjölga kennsludögum um 17 á ári, og án þess að lengja skóladaginn, kæmust íslenskir nemendur á svipað ról og norrænir jafnaldrar þeirra hvað fjölda kennsludaga varðar.
Gæti mildað áhrif kennaraskorts
Með styttingu grunnskóla um eitt ár mætti koma til móts við kennaraskort, enda kalla færri nemendur á færri kennara. Meðalstærð árgangs í íslenskum grunnskólum er um 4.300 nemendur sé miðað við árin 2012-2016 þó að yngstu bekkir hafi farið stækkandi á þessu tímabili. Í árslok 2016 voru grunnskólanemar 44.527 talsins. Ef gert er ráð fyrir styttingu náms um eitt ár eru nemendur að jafnaði 9 ár í grunnskóla og því má gera ráð fyrir að fjöldi grunnskólanemenda væri nær 40.000 nemendum, sem er, eðli máls samkvæmt, um 10% fækkun nemenda.
Kennarar voru alls 4.893 árið 2016. Miðað við sömu forsendur og hér að framan má gera ráð fyrir að kennurum gæti fækkað um 490 við styttingu. Vegna þess hve margir kennarar eru nálægt lífeyristökualdri þyrfti ekki að koma til uppsagna, en alls eru 696 kennarar 60 ára eða eldri. Þó að fækkun af þessu tagi taki sem slík ekki á nýliðunarvanda getur hún haft jákvæð áhrif á þá stöðu sem er að óbreyttu fyrirsjáanleg innan stéttarinnar.
Stytting gæti aukið gæði náms
Að því gefnu að fjárframlög yrðu ekki lækkuð við styttingu hefði hún í för með sér hækkun á fjárframlagi á hvern nemanda sem jafngildir fækkun þeirra, þ.e. um það bil 10% hækkun. Hækkunin myndi nema tæplega kr. 183.997,- á hvern nemanda. Með auknu fjármagni á hvern nemanda væri hægt að auka gæði námsins með ýmsum aðgerðum, t.d. með aukinni áherslu á vandaðar og reyndar kennsluaðferðir, bættum starfsaðstæðum kennara, endurmenntun þeirra, betra námsefni, með því taka upp auknar greiningar og mælingar á kennslu og lagfæra það sem hægt er og styðja betur við ólíkar þarfir nemenda.
Þá verður ekki horft framhjá því að grunnskólar eru í samkeppni um gott starfsfólk við aðra vinnustaði. Ef ekki er hægt að bjóða samkeppnishæft starfsumhverfi og laun er það rökrétt afleiðing að grunnskólarnir verði undir í þeirri samkeppni. Með styttingu grunnskólans væri hægt að hækka laun kennara umtalsvert án aukins kostnaðar hins opinbera. Sem dæmi má nefna að grunnlaun umsjónarkennara með 5 ára starfsreynslu gætu þannig hækkað úr kr. 516.846 á mánuði í kr. 568.530.
Tímabært að skoða styttingu af alvöru
Innan grunnskólanna fer fram gríðarlega mikilvægur undirbúningur einstaklinga til að takast á við framtíð sína. Það er þess vegna brýnt fyrir hvern og einn þeirra og samfélagið í heild að sá undirbúningur sé eins og best verður kosið.
Í þeim efnum þarf að leita skynsamlegra lausna, en það er ýmislegt sem bendir til þess að góð tækifæri séu fólgin í því að stytta grunnskólastigið um eitt ár og gera það betra fyrir nemendur og starfsfólk. Í því samhengi er í mörg horn að líta og þess vegna ætti atvinnulífið, ríki og sveitarfélög að taka höndum saman sem fyrst til að skoða allar hliðar málsins með hagsmuni nemenda að leiðarljósi.
Til umhugsunar eru reglulegir pistlar á vef SA um brýn samfélagsmál.
[1] Vegna þess hve ólík námsstig eru á milli Evrópulanda er hér er átt við tímalengd á námsstigum ISCED1 og ISCED2 (e. duration of compulsory primary og lower secondary general education).
[2] OECD Education Indicators in Focus: How much time do primary and lower secondary students spend in the classroom?