Er sýndarveruleiki málið?

Íslendingar eiga fjögur fyrirtæki sem eru framarlega á sviði sýndarveruleika í heiminum en það kemur í ljós á næstunni hvort tæknin verði almennt notuð. Þetta var meðal þess sem Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir, yfirframleiðandi tölvuleiksins Star Wars: Battlefront hjá DICE, benti á í erindi á Menntadegi atvinnulífsins 2016. Hún segir ótrúlega spennandi tíma framundan og tækifærin fjölmörg í skapandi greinum á Íslandi en það megi þó gera ýmislegt til að bæta starfsumhverfi sprotafyrirtækja. Tölvuleikjabransinn er orðinn stærri en kvikmyndabransinn á heimsvísu og ef sýndarveruleikatæknin slær í gegn gætu fjölmörg spennandi störf orðið til.

Sigurlína stýrir hundrað manna deild hjá sænska fyrirtækinu DICE í Svíþjóð sem bjó til Star Wars: Battlefront en leikurinn gerist á sama tíma og sögurnar í fyrstu þremur Stjörnustríðsmyndunum sem nánast hvert mannsbarn þekkir.

Hægt er að horfa á upptöku af erindi hennar hér en Lína eins og hún er oftast kölluð ræddi m.a. nauðsynlegar umbætur á menntakerfinu, samspil atvinnulífs og skóla, samstarfið við Lucas Films, tækifærin innan tölvuleikjabransans, skaðsemi gjaldeyrishafta og mögulegan spekileka frá Íslandi. Lína vinnur náið með Electronic Arts sem er móðurfyrirtæki Dice en tíu þúsund manns vinna hjá því fyrirtæki um víða veröld.

Aukið samstarf atvinnulífs og skóla
Lína hefur fjölþætta reynslu. Hún útskrifaðist úr iðnaðarverkfræði árið 2002 en áður en hún hóf störf hjá DICE var hún framleiðandi hjá CCP, en þar áður verkefnastjóri í lyfjaþróunardeild Actavis auk þess að vinna við viðskiptaþróun hjá Högum. Hún kallar eftir auknu samstarfi atvinnulífs og skóla, að nemendur fái betri kynningar á tækifærum sem eru til staðar og að þeir fái að kljást við fleiri hagnýt verkefni sem nýtast eftir að námi lýkur.

„Ég hafði ekki hugmynd um það sem unglingur að ég gæti orðið tölvuleikjaframleiðandi,“ segir Lína . „Eða að ég ætti eftir að sitja með fólkinu sem býr til Star Wars og fá vitneskju um hvað væri að gerast í ósýndri bíómynd. Það er eitthvað sem ég hef rosalega gaman af en ekki datt mér það í hug sem unglingur að ég gæti gert þetta og mér finnst það vera hlutverk atvinnulífsins en líka hlutverk menntakerfisins að kynna fyrir börnum og unglingum hvaða möguleikar bíða þeirra í atvinnulífinu.“

Rífandi sala
Star Wars: Battlefront kom út seint á síðasta ári. Bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir að selja 13 milljón eintök af leiknum á innan við hálfu ári og útlit er fyrir að það gangi eftir enda margir sem vilja fá hlutverk í Stjörnustríði. Leikurinn er fjölspilunarleikur sem fólk spilar við vini sína eða ókunnugt fólk á internetinu og hver vill ekki bregða sér í hlutverk Loga geimgengils, berjast á móti Svarthöfða og vinna?

„Leikurinn kom út núna  í nóvember og er fyrsti leikurinn sem kemur út í stórum samningi sem Electronic Arts gerði við Disney um að gefa út Star Wars tölvuleiki næstu 10 árin. Þannig að við eigum von á því að fá fjöldann allan af frábærum Star Wars tölvuleikjum í þessari nýju gullöld Star-Wars tölvuleikja,“ segir Lína að lokum en talið er að tölvuleikjabransinn hafi velt um 90 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári.

undefined

Skjáskot úr Starwars: Battlefront af vef DICE

SMELLTU HÉR TIL AÐ HORFA