Enginn vorboði þetta árið

Það hefur verið gaman að fylgjast með lífinu lifna við á landinu á vorin síðustu árin. Vor­boðinn ljúfi, ferða­mennirnir, hafa svo sannar­lega glætt mann­lífið hér. Fyrir utan öll störfin sem þau hafa skapað þá hefur aukinn fjöldi þeirra leitt til þess að hægt hefur verið að fjár­festa í mun fjöl­breyttari veitinga­stöðum, afþreyingu, ferða­manna­stöðum og gistingu. Þær fjár­festingar hafa líka nýst okkur vel sem erum hérna allt árið.

Þótt það stefni í að Ís­lendingar verði dug­legir að ferðast innan­lands í sumar þá er ljóst að það er langur vegur í að það geti komið í stað tekna af ferða­mönnum. Ekkert annað land á Vestur­löndum er hlut­falls­lega jafn háð ferða­mennsku eins og Ís­land.

Það er lítið annað hægt að gera en að gefa þeim fyrir­tækjum, sem eru líf­væn­leg til lengri tíma, kost á því að leggjast í híði. Með því er best tryggt að auð­velt verði að setja í gang aftur og fara í öflugt markaðs­á­tak þegar ferða­lög hefjast í okkar heims­hluta. Dæmin sanna að ef fyrir­tæki fara í þrot þá getur tekið langan tíma að koma sam­bæri­legri starf­semi af stað aftur. Þannig voru arf­takar Wow air t.d. ekki komnir af stað áður en kóróna­kreppan skall á þótt það væri tæpt ár liðið frá gjald­þroti Wow.

Það gerist nefni­lega ekkert af sjálfu sér í við­skiptum. Það þarf að standa vörð um fjár­festingar, hug­vit og önnur verð­mæti svo við getum fengið vor­boðann til að koma hingað, og tekið vel á móti honum, næst þegar færi gefst.

Davíð Þorláksson er forstöðumaður samkeppnishæfnissviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist í Fréttablaðinu í dag.