Enginn grundvöllur til samninga á grundvelli krafna SGS
Starfsgreinasamband Íslands (SGS) afhenti í dag Samtökum atvinnulífsins (SA) kröfugerð vegna kjaraviðræðna framundan vegna 16 aðildarfélaga þess annarra en félaga innan Flóabandalagsins (Eflingar, Hlífar og VSFK).
Kröfur SGS gera ráð fyrir að lágmarki 50% hækkun launataxta á næstu þremur árum, sérstökum launahækkanir til viðbótar í gjaldeyrisskapandi greinum (fiskvinnslu og ferðaþjónustu), viðbótarhækkunum vegna reynslu og menntunar, hækkana eingreiðslna og vaktaálaga, auk annarra krafna einstakra aðildarfélaga.
Það er mat SA að enginn grundvöllur sé til viðræðna við Starfsgreinasambandið um endurnýjun kjarasamninga á grundvelli kröfugerðarinnar. Í henni er ekkert mat lagt á áhrif tugaprósenta launahækkana á verðbólgu, vexti, verðtryggðar skuldir heimila og fyrirtækja, kaupmátt launa og atvinnuleysi. SGS ber skylda til að leggja mat á áhrif fyrrgreindra launahækkana gangi þær yfir allan vinnumarkaðinn.
Ljóst er að kjarasamningar í takti við kröfugerð SGS yrðu fordæmi fyrir aðra kjarasamninga. Hækkanir sem SGS fer fram á myndu ná til alls þorra félagsmanna ASÍ og síðan ganga yfir vinnumarkaðinn allan. Sú leið sem SGS vill fara hefur ítrekað verið reynd á Íslandi með afleitum árangri. Ávinningur launafólks af tugprósenta launahækkunum hefur verið lítill sem enginn, því sambærileg verðbólga hefur fylgt í kjölfarið og gengisfelling krónunnar. Tjón efnahagslífsins af þessari leið hefur verið mikið.
Samtök atvinnulífsins geta ekki gengið til viðræðna um slíka leið. Ekki síst vegna þess að við blasir sögulegt tækifæri til að halda áfram að byggja upp betri lífskjör með því að hækka laun í smáum en öruggum skrefum og halda verðbólgu lágri.
Eftir síðustu kjarasamninga við aðildarfélög ASÍ hjaðnaði verðbólga hratt, ársverðbólga féll undir 1% og kaupmáttaraukning ársins 2014 var um 5% sem er einn besti árangur sem Íslendingar hafa náð. Hagur heimilanna batnaði verulega vegna þess jafnvægis sem ríkti í efnahagslífinu og það er mikilvægt að byggja á þeim árangri í stað þess að grafa undan honum.
Samtök atvinnulífsins kynntu Starfsgreinasambandinu í dag mat SA á efnahagslegum áhrifum kröfugerðar SGS og hvöttu SGS jafnframt til að láta gera slíkt mat.