Engin loðna
Í eðlilegu árferði væri að hefjast frysting loðnuhrogna víða um land. Síðustu vikur hefði hrognafylling loðnunnar verið að aukast og hrognafull loðna verið flokkuð og fryst í fjölmörgum sjávarútvegsfyrirtækjum. Loðnubræðslurnar gengju fyrir fullum afköstum. Í flestum verstöðvum væri unnið allan sólarhringinn, karlar og konur á fullu til að unnt sé að framleiða sem mest verðmæti á sem skemmstum tíma.
Í eðlilegu árferði væri þetta staðan um þessar mundir.
Um landið þeytast flokkar Japana, fulltrúar kaupenda, og fylgjast með og taka út gæði loðnunnar, hrognafyllingar og hrognanna sjálfra. Umbúðasalar hafa birgt sig upp með plast og pakkningar og eru reiðubúnir að afgreiða hvert sem er. Flutningabílstjórar eru á útopnu að koma umbúðunum á sinn stað, flytja afurðir og annan varning fram og aftur. Skipafélögin eru í startholunum, búina að byrgj sig upp með frystigáma og jafnvel aukaskip til að geta komið afurðunum sem fyrst á markað. Í Japan bíða kaupendur spenntir eftir að bjóða neytendum nýframleiddar loðnuafurðir en allan almenning þyrstir í að fá að bragða nýjan árgang.
Þessi tími hefur oft ráðið úrslitum um afkomu einstakra fyrirtækja. Tekjurnar skila sér hratt til fólks, sem hefur lagt hart að sér á þessum tíma, þetta eru uppgrip bæði fyrir sjómenn, starfsmenn bræðslanna, iðnaðarmenn og landverkafólk.
Tækjaframleiðendur fylgjast spenntir með hvernig nýir flokkarar standa sig, dælukerfin, frystibúnaðurinn, færiböndin og pökkunarkerfin. Sjómennirnir eiga stutt á miðin, loðnan er nánast upp í landsteinum, skipin fylla sig hratt en það tekur lengri tíma að sigla í heimahöfn og bíða eftir löndun. Í Reykjavík má sjá loðnutorfurnar út við Gróttu þegar kemur fram í mars og jafnvel inn við Sæbraut.
Á undraskömmum tíma verða til framleiðsluverðmæti upp á 20-30 milljarða króna og jafnvel enn meiri í einstökum árum. Þessi tími hefur oft ráðið úrslitum um afkomu einstakra fyrirtækja. Tekjurnar skila sér hratt til fólks, sem hefur lagt hart að sér á þessum tíma, þetta eru uppgrip bæði fyrir sjómenn, starfsmenn bræðslanna, iðnaðarmenn og landverkafólk.
Allir eru glaðir þegar vel gengur.
Nú lítur hins vegar út fyrir að engin loðnuveiði verði á vertíðinni 2018 – 2019. Það er áfall, ekki einungis sjávarútvegsfyrirtækjanna, heldur einnig starfsfólks og allra birgja greinarinnar. Tekjur sveitarfélaga og ríkisins dragast saman.
… en vonandi kemur vestanganga.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.