Endurskoða þarf eftirlitskerfið frá grunni

Það er tímabært og gríðarlega mikilvægt að endurskoða eftirlitskerfi hins opinbera og leyfisveitingar frá grunni. Í dag er þetta kerfi allt of flókið og íþyngjandi og of dýrt í framkvæmd. Þetta sagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í setningarávarpi ráðstefnunnar Hreinn ávinningur, þar sem fjallað var um hvað fyrirtæki geta grætt af umhverfisstarfi. Á ráðstefnunni fjölluðu fulltrúar fjölda fyrirtækja um umhverfisstjórnun, þýðingu umhverfisstarfs fyrir ímynd fyrirtækja, menningu og samkeppnishæfni og um fjárhagslegan ávinning fyrirtækja af umhverfisstarfi. Að ráðstefnunni stóðu Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins,  Umhverfisfræðsluráð og ASÍ. Lokaorð flutti Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, en erindi ráðstefnunnar má nálgast hér að neðan.

Bylting á viðhorfum
Ari sagði byltingu hafa orðið á viðhorfum fólks og fyrirtækja til umhverfismála undanfarin ár og áratugi. Framfarirnar hefðu verið miklar, fyrirtæki tækju meiri ábyrgð á umhverfi sínu en áður, mengun frá atvinnustarfsemi hefði minnkað og öryggi á vinnustöðum aukist. Ari sagði fyrirtækin hafa bætt umhverfi sitt og nýtingu aðfanga og njóta með því aukins efnahagslegs ávinnings sem kemur bæði starfsmönnum og samfélaginu í heild til góða. Þá hefði atvinnulífið í áranna rás tekið ábyrga afstöðu til sjálfbærrar nýtingar auðlinda og stuðlað að því að viðhalda jákvæðri ímynd Íslands um náttúru og hreinleika.

Innra eftirlit, umbun, úrtaksskoðanir
Varðandi kröfuna um endurskoðun eftirlitskerfisins tók Ari fram að ekki væri verið að fara fram á afslátt af efnislegum kröfum. Hið opinbera ætti áfram sjá um að móta kröfur og fylgja eftir að þeim verði hrint í framkvæmd. Engin ástæða væri hins vegar til að opinberir embættismenn væru á ferðinni úti í fyrirtækjunum og benti Ari þannig á að í sjávarútvegi eru það faggiltar skoðunarstofur sem starfa á markaði sem sjá um að fylgja kröfunum eftir en Fiskistofa hefur yfirumsjón með eftirlitinu. Sama ætti auðveldlega að geta gilt um eftirlit undir yfirstjórn umhverfisráðuneytisins. Eins er unnt að fækka verulega eftirlitsheimsóknum með því að fylgjast með innra eftirliti rafrænt og hagræða í eftirlitinu með því að gera úrtaksskoðanir sem geta gefið mjög góða mynd af ástandinu í heilum atvinnugreinum en í mörgum tilvikum er engin nauðyn á reglubundnum heimsóknum í fyrirtækin. Loks sagði hann mikilvægt að færa efirlitið frá sveitarfélögum og að umbuna fyrirtækjum sem sinna góðu og þróttmiklu umhverfisstarfi með virku innra eftirlit.

Hindranir úr vegi
Ari sagði það kröfu atvinnulífsins að stjórnvöld gerðu sitt til að auðvelda íslenskum fyrirtækjum að sinna áfram umhverfisstarfi og efla það enn frekar og felldu nú þegar niður þær hindranir sem standa í vegi fyrir því að svo megi verða. "Þar skiptir mestu að dregið verði úr utanaðkomandi og íþyngjandi eftirliti með starfsemi fyrirtækja sem halda úti virku innra eftirliti, að áhersla verði lögð á samræmda framkvæmd slíks utanaðkomandi eftirlits og að framkvæmd þess verði sem frekast er unnt flutt til faggiltra skoðunarstofa sem geta þá hugsanlega sameinað ólíkar tegundir eftirlits í eina og gert úrtaksskoðanir."
 
Lokaorð umhverfisráðherra
Í lokaorðum sínum fagnaði Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra, samstarfi ráðuneytisins, SA, SI og ASÍ sem birtist í ráðstefnunni og sagði margt hafa komið fram sem gæfi tilefni til ígrundunar. Fyrirtækin hafi greinilega mikinn ávinning af því að stunda kerfisbundið umhverfisstarf og því fylgir einnig samfélagslegur ávinningur. Vægi umhverfismála er sífellt að aukast og velgengi fyrirtækja er sífellt meira háð því að þau standi sig vel í umhverfismálum.


Umhverfisráðherra fjallaði um markmið ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum og unnið væri að samvinnuverkefni um vistvæn innkaup hins opinbera. Hún sagði umhverfisráðuneytið vera markvisst að fara í gegnum eftirlitskerfi á þess vegum og að fljótlega yrðu kynntir áfangar í því starfi. Þegar innleiddar eru nýjar tilskipanir þarf að gera það þannig að auðvelt sé að fara eftir þeim.

Dagskrá ráðstefnunnar má nálgast hérna

Erindi ráðstefnunnar má nálgast hér:

Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA 

Finnur Sveinsson, Tæknival

Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir, Brim

Guðrún Bergmann, Ferðaþjónustan Hellnum

Guðrún Þóra Magnúsdóttir, Alcan

Haukur Harðarson, Mímir-símenntun

Jón Ingimarsson, Íslandsbanki

Ólafur Stolzenwald, Hjá GuðjónÓ

Pálmar Sigurðsson, Hópbílar

Stefán Gíslason, Umís

Steinn Kárason, Umhverfisfræðsluráði