Eitt ár
Í byrjun mánaðarins var ár liðið frá því að þriðji orkupakkinn var samþykktur. Sum töluðu fyrir rúmu ári síðan eins og hér væru á ferðinni ein mestu afglöp síðari tíma, ef ekki fyrri tíma líka. Það er því ekki úr vegi á þessum tímamótum að skoða hvað hefur breyst.
Það er skemmst frá því að segja að nákvæmlega eins og ríkið, meginþorri sérfræðinga og hagsmunasamtök í atvinnulífinu héldu fram þá hefur lítið sem ekkert breyst. Raforkuverð hefur ekki rokið upp og Evrópusambandið er ekki byrjað að undirbúa lagningu sæstrengs hingað til lands þvert gegn vilja heimamanna.
Í raun er óbreytt ástand stærstu fréttirnar. Með því að innleiða pakkann uppfylltum við þjóðréttarlegar skuldbindingar okkar og stóðum vörð um stöðu okkar á Evrópska efnahagssvæðinu. EES er mikilvægasta samstarf sem við eigum aðild að. Með aðgangi að innri markaði Evrópu bætum við lífskjör allra landsmanna. Það hefur fært okkur margvíslegt viðskiptafrelsi á ýmsum sviðum.
Það er líka mikilvægt að orkumál verði áfram hluti af EES-samstarfinu. Í því sambandi má til dæmis benda á hve nátengd orkumál eru loftslagsmálum. Það blasir við að engin ein þjóð mun leysa þau. Fyrir Íslendinga er nærtækast að vinna sem mest að lausn loftslagsvandans á vettvangi EES.
Það er ágætt að hafa þetta í huga næst þegar fólk reynir að beita brögðum eins og þjóðrembu og hrakspám til að sporna gegn frjálsum viðskiptum og alþjóðlegu samstarfi. Sem betur fer rætast þær aldrei. Við erum alltaf betur sett með frjálsum viðskiptum og alþjóðlegu samstarfi.
Davíð Þorláksson, forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.