Einstakt bann við útboðum þjónustu

Kjaraviðræður hafa staðið yfir milli Samtaka atvinnulífsins, f.h. ISAL, og samflots verkalýðsfélaga starfsmanna í álverinu í Straumsvík í tæplega eitt ár. Samkomulag liggur fyrir um kjaramálin en undirritun kjarasamnings strandar á kröfu um að aflétt verði takmörkun fyrirtækisins á því að fela verktökum ýmis verkefni. Því er rétt að varpa ljósi á það hvers vegna þessi krafa er sjálfsögð og eðlileg og jafnframt hve furðulegt það er að verkalýðshreyfingin skuli láta hana standa í vegi fyrir því að kjarasamningar í álverinu verði undirritaðir og laun starfsmanna álversins hækki eins og annarra á vinnumarkaði.

Úrelt fyrirkomulag
Fyrsta grein kjarasamningsins í álverinu í Straumsvík (ISAL) segir að hann taki til allra starfa í fyrirtækinu. Greinin hefur verið túlkuð þannig að fyrirtækinu sé óheimilt að nýta sér þjónustu verktaka, nema í undantekningartilvikum sem tiltekin eru í fylgiskjali með samningnum.

Verkefni sem talin eru upp í fylgiskjalinu eru á sviði nýbygginga, nýsmíði eða meiri háttar endurnýjunar og breytinga. Þar segir einnig að fela megi verktökum þjónustu á sérhæfðum sviðum s.s. við klukkukerfi, ljósritunarvélar, skrifstofuvélar, þreprofa í afriðladeildum, símastrengi, háspennustrengi, tækjabúnað tölvudeildar og viðhaldsverkefni sem ekki teljast til daglegra viðfangsefna viðhaldsdeilda fyrirtækisins.

Þá er fyrirtækinu heimilt að gera verksamning við fyrirtæki sem starfsmenn stofna, en þá skuli viðkomandi starfsmenn eiga rétt á endurráðningu ef verksamningi ljúki.

Þetta ákvæði, og túlkun þess, er einsdæmi í íslenskum kjarasamningum. Þegar álverið tók til starfa árið 1969 var gerður sérstakur kjarasamningur milli fyrirtækisins og samflots stéttarfélaga starfsmanna og kom þetta ákvæði inn í kjarasamninginn árið 1972. Þá voru aðstæður gerólíkar þeim sem nú ríkja og atvinnulífið fábreyttara og sérhæfing minni. ISAL gerðist aðili að VSÍ, forvera Samtaka atvinnulífsins, árið 1984 og hefur SA farið með samningsumboðið síðan f.h. fyrirtækisins. Síðasta aldarfjórðunginn, í u.þ.b. 15 samningalotum, hefur það verið krafa fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins að þetta ákvæði verði endurskoðað og að ISAL sitji við sama borð og önnur fyrirtæki í landinu. Fyrirtækið hefur viljað einbeita sér að framleiðslu áls, en fela öðrum aðilum verkefni sem þeir eru sérhæfðir í, s.s. rekstur mötuneytis, hafnarstarfsemi og öryggisgæslu. Þessum eðlilegu óskum fyrirtækisins hefur ávallt verið hafnað af verkalýðsfélögunum.

Ójafn leikur
Orkufrek fyrirtæki sem hafa hafið starfsemi hér í kjölfar ISAL búa ekki við sömu takmarkanir um viðskipti við utanaðkomandi þjónustuaðila. Þannig segir í kjarasamningi Elkem að hann taki til starfa í verksmiðjunni að öðru leyti en því sem þau  keypt frá utanaðkomandi og í kjarasamningi Norðuráls segir að sé undirverktökum falin umsjá verkefna skuli þess gætt að starfsmenn þeirra vinni samkvæmt kjarasamningum. Í kjarasamningi Fjarðaáls er sams konar ákvæði og í kjarasamningi ISAL en sem hindrar þó ekki að leitað sé til verktaka til sinna ýmis konar starfsemi. Með kjarasamningum við þessi fyrirtæki hefur verkalýðshreyfingin viðurkennt þau sjálfsögðu sjónarmið að viðkomandi fyrirtæki hafi svigrúm til að leita hagkvæmustu lausna í starfsemi sinni og geti einbeitt sér að því sem þau gera best.

Ómálefnaleg afstaða verkalýðshreyfingarinnar

Kjarni málsins er því sá að ISAL býr eitt fyrirtækja í landinu við kjarasamning sem takmarkar heimildir þess til að leita til verktaka við að sinna ýmis konar stoðstarfsemi og getur því ekki leitað hagkvæmustu lausna í rekstrinum. Verkalýðshreyfingin hefur í verki tekið undir þau sjónarmið að íslensk fyrirtæki búi ekki við takmarkanir á borð við þær sem kjarasamingur ISAL setur. Í yfirstandandi kjaraviðræðum hafa SA og ISAL sett þá sanngirniskröfu á oddinn að fyrirtækið búi við sömu aðstæður og önnur fyrirtæki í landinu um notkun verktaka. Fyrirtækið hefur jafnframt lýst því yfir að öllum starfsmönnum sem sinna störfum, sem verktökum yrði hugsanlega falið í kjölfarið, verði boðin önnur störf í fyrirtækinu. Í ljósi alls þessa er andstaða verkalýðshreyfingarinnar við sjálfsagðar kröfur ISAL óskiljanleg.