Einn af fimm glímir við lesblindu
Talið er að allt að 20% fólks glími við einhvers konar lesblindu, sem er þroskaröskun á námshæfni í lestri, skrift, stafsetningu og stærðfræði, auk þess sem hún getur birst í slæmu tímaskyni og lélegri ratvísi. Það er auðvelt að sjá í hendi sér þau tækifæri sem geta falist í að virkja þennan hóp og efla til góðra verka, en til þess þarf nýjar leiðir í menntamálum og jafnvel samfélaginu öllu.
Sem innlegg í þessa mikilvægu umræðu gengu Samtök atvinnulífsins til liðs við Sylvíu Erlu Melsted, Sagafilm og fleiri um framleiðslu á heimildarmynd um lesblindu sem byggð er á hugmynd Sylvíu. Sagafilm er framleiðandi myndarinnar en í henni kynnumst við Sylvíu og kerfi sem hún þróaði til að takast á við lesblindu og afleiðingar hennar. Hún greindist seint og hafði mikið fyrir því að klára grunn- og framhaldsskóla og kom sér upp fjölbreyttri tækni sem einnig hefur nýst fólki sem ekki er lesblint. Sylvía Erla er ung tónlistarkona og frumkvöðull sem hefur ekki látið lesblindugreininguna stoppa sig í því að ná markmiðum sínum.
Stikla úr heimildarmyndinni:
Þær eru margar sögurnar af fólki sem hefur hætt í námi eða verið sett til hliðar og af þeim sökum átt erfitt uppdráttar í lífinu. Einnig sögur af einstaklingum sem hafa fengið stuðning til að takast á við þennan vanda og þær gefa okkur sterkar vísbendingar um virðið sem felst í því að greina frávikin snemma og mæta þeim. Samfélagið hefur ekki efni á því að nýta ekki til fulls hæfileika 20% nemenda vegna sértækra námserfiðleika.
Leiðarljós Sylvíu er einfalt. Að virði fólks standi hvorki né falli með því hvort það getur lesið eða skrifað.
Í myndinni er fylgst með bakgrunni Sylvíu, samböndum við fjölskyldu og vini og störfum hennar sem tónlistarkonu. Sylvía hefur rannsakað mikið upp á eigin spýtur sem hefur styrkt hana og eflt í að öðlast sjálfstraust. Það hefur einnig hvatt hana til að miðla reynslu sinni til annarra í sambærilegum sporum.
Hún ræðir við vísindamenn sem staðfesta þá bjargföstu trú hennar að lesblindir eigi möguleika á öllum sviðum, á meðan þeir njóta viðeigandi örvunar, leiðsagnar og kennslu og að lesblinda hafi ekkert með greind eða annað atgervi fólks að gera. Sylvía skoðar jafnramt afleiðingar þess, bæði félagslegar og persónulegar, að mæta ekki þörfum lesblindra snemma á lífsleiðinni og vísar máli sínu til staðfestingar í viðurkennd gögn.
Myndin segir sögu Sylvíu, út frá sjónarhóli hins lesblinda og er ætlað að varpa ljósi á þær áskoranir sem lesblindir búa við á hverjum degi, kveikja hugmyndir í höfði þeirra og vonir í brjósti. Lesblinda hefur verið mikið rannsökuð án þess að nokkrar afgerandi niðurstöður liggi fyrir.
Sylvía Erla Melsted, tónlistarkona og frumkvöðull og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, handsala samkomulagið á meðfylgjandi mynd.