Dósent gengisfellir Háskóla Íslands

Dósent við Háskóla Íslands og sérfræðingur í vinnumarkaðsfræðum fer með órökstuddar staðhæfingar um sérsvið sitt í viðtali við Morgunblaðið í gær. Staðhæfingar hans ganga þvert á alkunnar og mælanlegar staðreyndir enda vísar hann ekki til neinna gagna eða rannsókna sem ályktanir hans byggja á.

Staðhæfingar dósentsins koma fram í fyrirsögnum blaðsins, þ.e. „Hafa vanrækt lægstu hópa launafólks“ og „ ... ósamstíga verkalýðshreyfing er vatn á myllu vinnuveitenda“. Hér er öllu snúið á haus. Hann segir í viðtalinu að það sé „alveg ljóst“ að „menn hafa vanrækt lægstu hópana.“

Staðreyndirnar tala öðru máli. Lágmarkslaun voru 125 þús. kr. á mánuði árið 2007 og verða 300 þús. kr. þann 1. maí 2018. Kaupmáttur lágmarkslauna jókst um rúmlega 40% á tímabilinu. Til samanburðar jókst kaupmáttur launafólks almennt um 20% skv. launavísitölu.

Á árunum eftir hrunið var sérstök áhersla lögð á að verja lífskjör lægst launuðu hópanna með sérstökum hækkunum þeim til handa. Á árunum 2006 til 2015 hækkuðu lægstu launataxtar meira en hærri launataxtar á hverju einasta ári, að árinu 2007 undanskildu. Þau hækkuðu sem sagt sérstaklega í 9 ár af þessum 10. Í stað „vanrækslu“ lægstu launa var megináherslan lögð á hækkun þeirra. Þessi launastefna var ekki óumdeild meðal stéttarfélaga landsins og hafa ítrekaðar atlögur verið gerðar að henni af félögum kennara og háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna sem hafa viljað fá meiri hækkanir en láglaunafólkið.

Miklar launahækkanir á Íslandi undanfarin ár og styrking krónunnar hafa leitt til þess að lágmarkslaun á Íslandi eru meðal þeirra hæstu í heimi.

Hina gildishlaðna ályktun um að sundurlaus verkalýðshreyfing sé „vatn á myllu vinnuveitenda“ er einnig alröng og öfugsnúin. Samstíga verkalýðshreyfing með skýr markmið er atvinnulífinu og þar með þjóðfélaginu öllu til hagsbóta. Það er kjarni norræna kjarasamningalíkansins. Íslenska kjarasamningalíkanið einkennist hins vegar af sundurlyndi verkalýðsfélaga í innbyrðis baráttu um launahlutföll með verkfallsvopnið á lofti.

Háskóli er stórt orð. Samtök atvinnulífsins skora á dósentinn að gera grein fyrir þeim rannsóknum sem hann byggir þennan maka- og rakalausa málflutning sinn á.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2017.