Derek Ridyard fjallar um samkeppnismál á Natura á morgun
Samtök atvinnulífsins, í samtarfi við LEX lögmannsstofu, efna til morgunverðarfundar um samkeppnismál á Icelalandair Hotel Natura í fyrramálið, fimmtudaginn 22. janúar. Þar mun Derek Ridyard, hagfræðingur, m.a. stíga á stokk en hann hefur í meira en 25 ár sérhæft sig í að meta áhrif samkeppnislaga á efnahagslífið. Mikill fengur er að komu Dereks til landsins en hann hefur unnið að umfangsmiklum dómsmálum á sviði samkeppnislaga í Evrópu í fjölbreyttum atvinnugreinum og hefur verið kallaður til sem sérfræðingur við meðferð samkeppnislagabrota víðs vegar um heiminn.
Áður starfaði hann sem hagfræðingur Office of Fair Trading í London sem gætti hagsmuna neytenda. Hann er einn af stofnendum ráðgjafafyrirtækisins RBB Economics en það sérhæfir sig í samkeppnislögum og málum þeim tengdum.
Yfirskrift fundarins er Réttarstaða fyrirtækja og inngrip í rekstur. Þar verður staða samkeppnismála á Íslandi borin saman við nágrannalöndin, m.a. í ljósi smæðar og sérstöðu markaðarins. Í lögum er ríkinu heimilað að grípa til aðgerða gegn skipulagi fyrirtækja, taka gögn og ákveða viðurlög gegn meintum brotum.
Auk Dereks eru frummælendur Heimir Örn Herbertsson hæstaréttarlögmaður hjá LEX og Bergþóra Halldórsdóttir, lögfræðingur hjá SA.
Fundurinn fer fram á Icelandair Hotel Natura kl. 8.30-10. Allir eru velkomnir. Boðið verður upp á létta morgunhressingu frá kl. 8. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku hér að neðan.