Deilihagkerfi, tækifæri eða ógnanir?
Deilihagkerfi byggir í grunninn á því að einstaklingar deili hver með öðrum vöru, þjónustu og upplýsingum. Þeir geta ýmist gert það gegn gjaldi eða í skiptum fyrir það sem hinn hefur að bjóða. Með tilkomu deilihagkerfis geta einstaklingar aflað tekna, bætt nýtingu framleiðsluþátta og aukið framleiðni.
Deilihagkerfi eru ört vaxandi og í stöðugri þróun sem við höfum ekki orðið varhluta af hér á landi, sér í lagi í ferðaþjónustu. Í kjölfar mikillar fjölgunar ferðamanna hefur ýmis þjónusta sprottið upp sem rekja má til deilihagkerfis eins og Airbnb, HomeExchange, Caritas, Samferda.is og Bungalo. Slíkir sprotar eru þó ekki einungis bundnir ferðaþjónustu en þá má finna á ýmsum sviðum þar sem fólk býður fram tíma sinn, upplýsingar eða jafnvel matarafganga til sölu eða skipta.
Heimagisting hefur vaxið ört síðustu ár og áætlar efnahagssvið SA að á höfuðborgarsvæðinu sé herbergjaframboð gistirýma sem flokkast undir heimagistingu álíka mikið og herbergjaframboð allra hótela og gistiheimila. Þegar einstaklingi gefst kostur á að leigja út íbúð sína þegar hún er ekki í notkun er sá aðili að nýta eign sína betur, sem eykur bæði verðmæti hennar og dregur úr sóun öllum til heilla. Nokkuð ber þó á misnotkun á þeim möguleikum sem deilihagkerfi skapar. Ekki fara allir að lögum og reglum og dæmi eru um að stunduð sé atvinnustarfsemi undir nafni heimagistingar.
Mikilvægt er að endurskoðun regluverks sem snýr að heimagistingu þrengi ekki að þeim sem fara að lögum og reglum. Finna þarf farsælustu leiðina til þess að tryggja að skattar og gjöld skili sér til samfélagsins án þess að slík breyting hamli vexti og framþróun deilihagkerfis.
Sjá nánar: