Dauðafæri

„Það væri glapræði að skattleggja einkageirann meira en orðið er til þess að fjármagna hallarekstur ríkissjóðs.“ Þetta sagði fjármálaráðherra nýverið sem viðbragð við versnandi afkomuhorfum ríkisins. Skattahækkanir á laskað atvinnulíf væru eingöngu til þess fallnar að ýta undir enn meira atvinnuleysi og dýpri efnahagssamdrátt en þegar blasir við. Í ljósi þessa eru ummæli ráðherra skynsamleg.

Rétt rúmur áratugur er frá því stjórnvöld stóðu frammi fyrir áskorun af svipuðu tagi þegar fjármálakreppan skall á af fullum þunga. Viðbrögðin þá voru að ráðast í umfangsmiklar skattahækkanir á árunum eftir hrun. Þær skattahækkanir, samhliða uppgangi í efnahagslífinu, hafa staðið undir samfelldum útgjaldavexti hins opinbera undanfarin ár. Frá árinu 2011 hafa opinber umsvif vaxið að raunvirði um 25 prósent og á sama tíma hafa hlutfallslega fleiri störf orðið til hjá hinu opinbera en á hinum almenna markaði.

Enn standa óhaggaðar áratugagamlar skattahækkanir, sem sumar hverjar voru settar á tímabundið, og umsvif hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eru næstum hvergi meiri en á Íslandi. Íþyngjandi skattheimta þrengir verulega að rekstri fyrirtækja, getu þeirra til fjárfestinga og nýsköpunar. Stjórnvöld hafa flýtt lækkun bankaskatts og boða skattalækkanir á einstaklinga á næsta ári, sem er vel. Gróflega áætlað munu hins vegar skattahækkanir fyrri ára, auk nýrra skatta, áfram skila hátt í hundrað milljörðum króna í viðbótartekjur til ríkissjóðs. Eftir stendur að Ísland verður að óbreyttu áfram háskattaríki í öllum samanburði.

Að lofa því að skattar hækki ekki umfram það sem þegar er dugar ekki til. Skattar þurfa einfaldlega að lækka. Breyta þarf áherslum í opinberum rekstri og hagræða. Það er vel gerlegt án þess að ráðast í blóðugan niðurskurð. Forgangsraða þarf betur sameiginlegum fjármunum og tryggja að fjármálastefnan styðji við atvinnulífið. Auka þarf skilvirkni í opinberum rekstri og útvista verkefnum til einkaaðila. Þar liggja tækifærin og nú er dauðafæri.

Greinin er eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Hún birtist fyrst í Viðskiptablaðinu þann 4. júní.