Danir senda Ísland í undanúrslit HM

Ísland er meðal sterkustu þjóðanna sem taka þátt í HM sem nú stendur yfir í Rússlandi en Danir senda Ísland rakleitt í undanúrslit. Þetta sýnir nýtt mat Dansk industri (DI) í Danmörku. Matið snýr þó ekki að knattspyrnuhæfileikum og baráttuþreki, heldur þrótti efnahagslífsins.

Allt er þetta til gamans gert en DI stillti þjóðunum 32, sem taka þátt í HM í Rússlandi, upp í sömu riðla og þjóðirnar eru í fyrir austan. Styrkleikar og veikleikar hagkerfa þeirra voru metnir og hófst þá leikurinn.

Tvö lið komust upp úr hverjum riðli. Í fyrstu umferð komust þau lönd upp úr riðlinum þar sem atvinnuþátttaka var meiri, aðstæður til að stofna fyrirtæki betri og skuldir hins opinbera lægri. Í fyrstu umferð komust því 16 lið upp úr riðlunum átta, þar á meðal Ísland, en margir voru slegnir yfir því að Þýskaland kæmist ekki áfram. Þrátt fyrir sterkt efnahagslíf felldu háar opinberar skuldir Þjóðverja úr leik.

16 LIÐA ÚRSLIT

Spánn - Úrúgvæ
Ísland - Perú

Belgía - Pólland
Svíþjóð - Kostaríka

Sviss - Suður-Kórea
England - Kólumbía

Danmörk - Argentína
Rússland - Portúgal

Þegar hér var komið til leiks var hagsæld þjóðanna leiðin til sigurs og setti því mark sitt á leikplanið. Danir lögðu Argentínu auðveldlega, enda erfiðleikar þar innanbúðar, en einn stærsti sigur 16-liða úrslitanna var þegar Ísland lagði Perú. Þrátt fyrir efnahagshrun, gjaldþrot banka, stjórnarslit og nauðvörn íslensku krónunnar kom íslenska liðið til baka og hefur aldrei verið sterkara. Áhorfendur veittu því sérstaka athygli að á síðustu fimm árum hefur landsframleiðsla á mann vaxið um 4,4 prósentustig á Íslandi og það eru fáar þjóðir sem státa af viðlíka árangri.

8 LIÐA ÚRSLIT

Spánn - Ísland
Belgía – Svíþjóð

Sviss – England
Danmörk - Portúgal

Í þessari umferð komu þær þjóðir sterkastar til leiks þar sem atvinnuleysi er lægst. Norðrið var með nokkra yfirburði yfir suðrinu hér öfugt við það sem gengur og gerist á knattspyrnuvellinum. Danir lögðu Portúgal og Ísland valtaði yfir Spán. Englendingar heltust hér úr lestinni og kom ekki á óvart þar sem þeir mættu sterku liði Sviss. Efnahagsspekingar höfðu á orði að þjóðirnar sem hér luku keppni hefði skort skínandi stjörnur í efnahagslífinu á borð við Ronaldo, Iniesta, Lukaku og Kane.

UNDANÚRSLIT

Ísland – Svíþjóð
Sviss – Danmörk

Hér voru leikar teknir að æsast en fjárfesting í rannsóknum og þróun réði hér úrslitum. Eftir að hafa staðið sig firnavel lauk ferðalagi Íslendinga og Dana hér en Sviss og Svíþjóð tryggðu sér sæti í úrslitunum. Var það mál áhorfenda að árangur Svía og Svisslendinga á sviði nýsköpunar hefði riðið baggamuninn. Föst leikatriði Íslendinga komu ekki að gagni.

ÚRSLIT

Svíþjóð – Sviss

Þá var komið að stóru stundinni og í úrslitaleiknum réði hagvöxtur ársins 2018. Dagsformið skipti hér miklu máli og svo fór á endanum að Svíar með 2,6% hagvöxt á þessu ári mörðu Sviss í spennandi leik sem státa af 2,3% hagvexti á árinu.

LOKASTAÐAN Á (EFNAHAGS) HM 2018

  1. Svíþjóð
  2. Sviss
  3. Ísland
  4.  Danmörk

DI eru samtök iðnaðarins í Danmörku og systursamtök SA og SI.