Þegar Bastian bæjarfógeti mætti með fylgdarliði til að bjarga Soffíu frænku frá ræningjunum vildi hún ekki fara. Hún viðurkenndi fyrir fógetanum að henni fyndist gott að hafa einhvern til að skeyta skapi sínu á. Úr varð að Soffía sat eftir í óþökk allra sem í hlut áttu.
Áskoranir sem við okkur blasa eru margar, líkt og hjá Soffíu forðum. Þar á meðal tengdar menntakerfinu. Endurmenntun og umskólun bíður fjölda fólks sem stendur frammi fyrir því að missa störf sín. Þessum hópi þarf að sinna.
Nemendur í grunn- og framhaldsskólum takast á við skólagöngu í gerbreyttri mynd. Stytting framhaldsskólans í þrjú ár mun enn auka á frábrugðna umgjörð menntskælinga sem upplifa nú stærstan hluta skólaársins í fjarkennslu og afar takmarkað félagslíf. Námsefnið tekur mið af rafrænni miðlun, kennsluhættir breytast og foreldrafundir eru fjarfundir. Útskriftarferðir og hátíðarhöld bíða. Sumt gengur til baka, annað ekki. En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Við leitum nýrra leiða og brjótumst úr viðjum vanans. Í vananum felst endurtekin hegðun án endurskoðunar. Aðförin að vananum getur leitt af sér tækifæri til sóknar og framfara.
SA munu á næstunni kynna tillögur sem varða leiðina áfram um þróun mikilvægra málaflokka. Því fyrr sem við beinum kastljósinu að því sem fram undan er því betra. Við þurfum á óskertu hugviti og hugrekki sem flestra að halda til að spyrna við. Vegferðin fram undan er vandasöm. Í þeirri ferð er mikilvægt að geyma upphrópanir og ergelsi. Leyfum verkefnum og hagsmunum að ganga fyrir. Leyfum okkur að trúa á líf eftir COVID. Munum að varðveita þekkingu og verðmæti, þróum hugmyndir, byggjum upp og höldum áfram.
Soffíurnar leynast víða. Það getur falist í því útrás að finna sökudólg til að skeyta skapi sínu á og ekki er víst að við viljum láta bjarga okkur úr þeim samkvæmisleik. Það er erfitt að beina gremjunni að veirunni sjálfri. Hún er lítið á samfélagsmiðlum, les ekki blöðin og er oftast með slökkt á símanum. Upptekin við annað.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, verkefnastjóri á samkeppnishæfnisviði SA. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.