Búum í haginn þegar vel árar
Það verður af nógu að taka hjá nýrri ríkisstjórn. Rými hennar til athafna markast að talsverðu leyti af stöðu ríkisfjármála. Hún er öfundsverð um þessar mundir. Hins vegar liggur fyrir að hagkerfið er að breyta um takt eftir mikinn uppgang. Þótt margt hafi áunnist má alltaf gera betur. Skuldir þjóðarbúsins hafa lækkað mikið á undanförnum árum en þær eru enn meiri en þær voru fyrir 2008. Að sama skapi er vaxtakostnaður íslenska ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu einungis hærri í Portúgal og á Spáni. Á þessu ári greiðum við 93 milljarða í vexti og afborganir. Betur má ef duga skal og mikilvægt að draga áfram úr skuldum ríkissjóðs og nýta gott árferði til að búa í haginn. Uppgangur tekur alltaf endi. Auka þarf áherslu á skilvirkni í stað linnulausrar umræðu um aukin fjárframlög.
Aukin verðmætasköpun í fyrirtækjum landsins er undirstaða frekari uppbyggingar samfélagsins. Aukin útgjöld kalla á auknar álögur sem sóttar eru í vasa landsmanna þegar upp er staðið.
Það hefur verið takmarkað aðhald í rekstri ríkisins sé tekið tillit til hagsveifluleiðrétts tekjuafgangs. Útgjöld ríkissjóðs hafa aukist hratt á þessum uppgangstíma sem hefur skilað afgangi sem nemur ríflega einu prósenti af landsframleiðslu. Skattahækkanir áranna eftir hrun standa nær óhaggaðar. Breikkun skattstofna í umhverfi vaxandi efnahagsumsvifa hafa leitt til þess að Íslendingar greiða meira en nokkru sinni fyrr í ríkissjóð. Hækkun skattbyrði á hvern einstakling nemur 550 þúsund krónum að raunvirði frá 2009 og hefur aukist um 35% á undanförnum átta árum.
Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman gátlista sem innlegg í umræður um áhersluatriði næstu ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.
Búa verður í haginn
Mikilvægt er að auka afgang af rekstri ríkissjóðs meðan tekjustofnar eru enn sterkir. Við munum búa að þeirri ráðdeild næst þegar harðnar á dalnum.
Tryggja aðhald
Snúa þarf af þeirri braut að auka útgjöld á þenslutímum. Markmið ríkisfjármálastefnu á að vera að milda hagsveiflur í stað þess að ýta undir þær.
Forgangsraða ríkisútgjöldum
Tekjur ríkissjóðs eru mjög miklar bæði í sögulegum og alþjóðlegum samanburði. Skorti fé til þarfra verka er skýr krafa um forgangsröðun á kostnað annarra þátta.
Draga úr álögum á fólk og fyrirtæki
Ísland er háskattaland í samanburði við önnur þróuð ríki. Ekki hefur að neinu marki verið hróflað við miklum skattahækkunum áranna eftir hrun. Mikilvægt er að skapa svigrúm til þess að hægt sé að draga úr skattheimtu.
Niðurgreiðsla skulda
Þrátt fyrir að skuldastaða ríkissjóðs hafi farið batnandi eru skuldir enn mun hærri en þær voru 2008 og vaxtakostnaður er enn einn af hæstu útgjaldaliðum ríkissjóðs. Mikilvægt er að hvika hvergi frá áframhaldandi niðurgreiðslu skulda.
Aukin verðmætasköpun í fyrirtækjum landsins er undirstaða frekari uppbyggingar samfélagsins. Aukin útgjöld kalla á auknar álögur sem sóttar eru í vasa landsmanna þegar upp er staðið. Nú er lag að búa í haginn og greiða niður skuldir ríkissjóðs.
Greining SA á stöðu ríkisfjármála, áskorana og væntra áhrifa er öllum aðgengilega á vef samtakanna, sa.is:
Gátlisti fyrir næstu ríkisstjórn. Staða mála og fjármálastefna til næstu ára (PDF)
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. nóvember 2017