Búum í haginn á tímum góðæris

Fyrir liggur fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2018-2022. Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um áætlunina og komu fyrir fjárlaganefnd Alþingis í morgun. Á fundinum voru eftirfarandi atriði dregin fram af hálfu SA.

Hagvaxtarskeið taka enda
Áætlaður afgangur upp á 1,5% að jafnaði í rekstri hins opinbera er engan veginn fullnægjandi. Fjármálaáætlunin byggir á þeirri lykilforsendu að hér verði áfram kröftugur hagvöxtur út allt tímabilið. Ekki þarf mikið að bregða út af svo að halli verði á rekstri ríkissjóðs. Er það mikið áhyggjuefni einkum vegna þeirrar alvarlegu skuldastöðu sem enn blasir við en opinberar skuldir eru tvöfalt hærri nú en þær voru í aðdraganda bankakreppunnar síðustu. Að treysta á eitt lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar getur vart talist ábyrg stefna því þessi efnahagsuppsveifla mun enda taka líkt og allar þær sem á undan henni komu.

Mikilvægt að greiða hratt niður skuldir
Áform eru um að greiða áfram niður skuldir og stefnt er að því að árið 2022 muni skuldahlutfallið svipa til þess sem var fyrir árið 2008. Til þess þarf þó ýmislegt að ganga eftir. Kröftugur hagvöxtur er þar stærsti einstaki þátturinn en einnig er treyst á að einskiptistekjur eins og eignasala og arðgreiðslur verði nýttar til niðurgreiðslu skulda. Ef til bakslags kemur í hagkerfinu mun skuldahlutfallið lækka hægar, arðgreiðslur dragast saman og er ekki er fast í hendi hvernig til tekst að selja eignir. Niðurgreiðsla skulda er því óvissu háð.

Fjármálstefna án aðhalds
Á tímum góðæris er mikilvægt að hið opinbera dragi úr umsvifum sínum og búi í haginn fyrir það þegar hagvaxtarskeiðið tekur enda. Í núverandi áætlun stjórnvalda er hins vegar slakað á aðhaldsstigi opinberra fjármála yfir nánast allt tímabilið. Enn og aftur eru stjórnvöld því að ýta undir þenslu fremur en að draga úr henni. Núverandi stefna er í senn áhættusækin og óábyrg.

Ísland er háskattaland í alþjóðlegum samanburði
Eitt af því sem stjórnvöld hafa leyft sér í skjóli mikils hagvaxtar er að auka opinber útgjöld markvert. Er svo komið að nánast hvergi meðal þróaðra ríkja eru opinber útgjöld eins hátt hlutfall af landsframleiðslu, umsvif sem fjármagna þarf með aukinni skattheimtu. Í núverandi fjármálastefnu stjórnvalda eru engin áform um að draga úr opinberum umsvifum og er gert ráð fyrir að þau verði nokkuð svipuð að umfangi árið 2022 og nú er. Rétt er að minna stjórnvöld á þá staðreynd að það voru skattahækkanir sem vörðuðu leiðina að hallalausum rekstri. Ekki verður betur séð en að núverandi stefna stjórnvalda sé staðfesting á því að festa eigi þær skattahækkanir í sessi.

Langtímaáætlunina skortir framtíðarsýn
Agi í fjármálum hins opinbera er ekki það sama og blóðugur niðurskurður í grunnstoðum samfélagsins. Mikið er rætt um að nýta betur opinbert fé en hvergi í áætluninni má finna greinargóðar áætlanir þess efnis. Breytingar á virðisaukaskattskerfinu einfalda það ekki ef þrepin verða áfram jafnmörg, en núverandi áætlun gerir því miður ekki ráð fyrir að á endanum verði eitt neysluskattsþrep. Margvísleg tækifæri eru til að bjóða út fleiri rekstrar- og þjónustuþætti en hvergi kemur fram afstaða stjórnvalda til slíks. Fjárfesta þarf í innviðum en ekki er kveðið skýrt á um hvernig skuli fjármagna slíkar fjárfestingar. Varla er lausnin fólgin í aukinni skattheimtu, sem er ekki aðeins mikil í sögulegum samanburði heldur einnig alþjóðlegum.

Allir verða að sýna ábyrgð, stjórnvöld líka
Jákvæð afkoma er ekki trygging þess efnis að aðhald sé nægjanlegt. Stjórnvöld hafa ekki stutt við hagstjórnina í gegnum tíðina og það veldur því vonbrigðum að aðhaldsstigið sé ekki meira í núverandi áætlun.

Sjá nánar:

Greining efnahagssviðs SA á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022 (PDF)

Umsögn SA um fjármálaáætlunina má nálgast hér (PDF)