Brýnustu verkefni nýrrar ríkisstjórnar

Með nýjum stjórnarsáttmála endurnýja ólíkir flokkar samstarfið. Mikilli tilfærslu á málaflokkum og endurskoðun ráðuneyta fylgir að skerpa þarf á áherslum. Í nýjum stjórnarsáttmála er að finna málamiðlanir flokkanna í stórum málum en að sama skapi nokkurs konar aðgerðaáætlun innan hvers málaflokks, sem er til bóta. 

Á kjörtímabilinu stendur atvinnulífið frammi fyrir áskorunum. Eftirleikur Covid-kreppunnar snýst um að auka á ný verðmætasköpun, undirbyggja öflugan hagvöxt og áframhaldandi bætt lífskjör almennings.  

Áætlað er að hallarekstur fari minnkandi án þess þó að verkefni verði skorin niður. Svar endurnýjaðs stjórnarsamstarfs snýst í meginatriðum um nýsköpun og vöxt á grundvelli öflugs atvinnulífs sem er forsenda þess að áform um ríkisrekstur, eins og hann birtist í nýframlögðum fjárlögum, nái fram að ganga.  

Í stjórnarsáttmála stendur skýrt að markmið nýrrar ríkisstjórnar sé að vaxa til meiri velsældar með öflugu atvinnulífi. Til að svo megi verða þarf að standa vörð um rekstrarumhverfi fyrirtækja og skapa skilyrði svo unnt sé að ráðast í skattalækkanir líkt og lofað er í stjórnarsáttmálanum. 

Í eftirfarandi samantekt tökum við saman fimm jákvæðar áherslur sem við teljum að komi til með að skipta máli fyrir atvinnulífið. 

 1. Nauðsynlegar umbætur á umgjörð vinnumarkaðar

Lögð er áhersla á að viðhalda umhverfi stöðugs verðlags og vaxta til að stuðla að áframhaldandi lífskjarabata. Vinnumarkaðurinn leikur þar lykilhlutverk sem þriðji armur hagstjórnar. Sérstakt markmið nýrrar ríkisstjórnar er að stuðla að bættum vinnubrögðum og aukinni skilvirkni við gerð kjarasamninga, meðal annars með því að efla hlutverk ríkissáttasemjara og koma á fót standandi gerðardómi.  

Kjarasamningagerð á Íslandi er einkar óskilvirk í samanburði við hin Norðurlöndin, sem leiðir til óþarfa óvissu með tilheyrandi kostnaði. Með yfir 90% launafólks í stéttarfélögum varðar það almannahagsmuni að mikilvægar umbætur á umgjörð vinnumarkaðar, að Norrænni fyrirmynd, nái fram að ganga sem fyrst. Áherslur stjórnvalda til umbóta á vinnumarkaði eru því í senn nauðsynlegar og tímabærar. 

Fjöldi kjarasamninga, stéttarfélaga og félagsmanna

 2. Starfsumhverfi fyrirtækja bætt - skilvirkari stjórnsýsla 

Stjórnarsáttmálinn leggur áherslu á bætt starfsumhverfi fyrirtækja meðal annars með því að draga úr hindrunum í gildandi regluverki og sameiningu stofnana þar sem við á, svo sem Samkeppniseftirlits og Neytendastofu en slíkt fyrirkomulag þekkist víða á Norðurlöndunum og í Evrópu. Þar er því ekki eftir neinu að bíða. Aukin áhersla verður á stafræna þjónustu hins opinbera og gagnsærra skattkerfi.   

Ísland hefur hingað til ekki skorað hátt í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að skilvirku skattkerfi, regluverki og stjórnsýslu. Hér liggja því mikilvæg tækifæri til umbóta sem sparað gætu hinu opinbera, jafnt sem fyrirtækjum og einstaklingum, miklar fjárhæðir og mörg óþarfa skref. Að auki eru slíkar umbætur til þess fallnar að efla íslensk fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni og hvetja almennt til atvinnurekstrar og nýsköpunar. 

 Samkeppnishæfni skattkerfisins og stafræn þjónusta hins opinbera

3. Áframhaldandi stuðningur við innviði og nýsköpun

Víða í sáttmálanum má sjá aukinn stuðning við innviðauppbyggingu, hvort sem horft er til áþreifanlegra innviða á borð við húsnæði og samgöngur eða óáþreifanlegra á borð við tækni og menntun.  

Festa á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar í sessi, efla menntun í raun- og tæknigreinum og auðvelda fyrirtækjum aðgengi að erlendum sérfræðingum til sérhæfðra starfa. Einnig verða heimildir lífeyrissjóða til þátttöku í óskráðum fjárfestingum auknar, svo sem í innviðum og nýsköpun. Margt hefur áunnist í umhverfi nýsköpunar að undanförnu og ánægjulegt er að sjá aukinn kraft á þeirri vegferð, enda eru sterkir innviðir og tækninýjungar undirstöður framtíðarhagvaxtargetu þjóðarbúsins. Mikilvægt er að gagnsæi ríki um forgangsröðun og arðsemisútreikninga þegar kemur að fjárfestingu hins opinbera í innviðum.  

 Útgjöld til rannsóknar og þróunarstarfsemi, fjöldi einkaleyfa

4. Heilbrigðisþjónusta efld – notandinn í fyrsta sæti 

Rík áhersla er lögð á heilbrigðismál í stjórnarsáttmála enda stærsti útgjaldaliður ríkisins. Einstaklingurinn og þarfir hans ættu alltaf að vera í fyrsta sæti þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. Í því ljósi er fagnaðarefni að innleiða eigi þjónustutengda fjármögnun í auknum mæli í heilbrigðiskerfinu og að tryggt verði að þjónusta verði veitt innan ásættanlegs tíma með hjálp miðlægra biðlista, sem er í takt við tillögur SA, sem lesa má hér.  

Þá er risastórt skref að stjórn verði sett yfir Landspítalans til stuðnings stjórnendum. Erfitt er að sjá hvernig létta megi álagi af opinberum heilbrigðisstofnunum án þess að styðjast frekar við einkaframtak, t.a.m. í fjölbreyttari þjónustu við eldra fólk. Í sáttmálanum kemur fram að ýtt verði undir samstarf opinberra aðila og einkaaðila á sviði tæknilausna, en styðjast ætti við slíkt samstarf á fleiri sviðum heilbrigðisþjónustu.  

 Biðlistar lengjast á hjúkrunarheimili þrátt fyrir fjölgun hjúkrunarrýma

 

 5. Skynsamleg orkuskipti

Í sáttmálanum er lögð áhersla á sjálfbæra þróun sem er lykilþáttur í sterku hagkerfi nútímans. Skýr markmið byggð á vísindalegri nálgun eru lögð til grundvallar. Jákvæðir hvatar til fjárfestinga, ívilnanir og áhersla á hringrásarhagkerfið eru allt þættir sem eru líklegri til að skila árangri til lengri tíma litið en aukin skattlagning eða íþyngjandi og ógagnsætt regluverk.  

Nýtt ráðuneyti sem sameinar umhverfis-, orku- og loftslagsmál stuðlar að heildrænni nálgun en ella – mikilvægt er að jafnvægi sé á milli náttúruverndar og nýtingu auðlinda. Græn orka skapar verðmæt tækifæri fyrir framtíðarkynslóðir, hvort sem hún er nýtt innanlands til orkuskipta eða til útflutnings svo draga megi frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda með hreinni íslenskri orku. Samstarf við einkaaðila í uppbyggingu samgönguinnviða er mikilvægt heillaskref sem eykur verðmætasköpun og hjálpar til við að ná markmiðum orkuskipta. Orkuskiptin fela í sér efnahagsleg tækifæri fyrir heimili og fyrirtæki en verkefnið verður að vera byggt á öflugum jákvæðum hvötum og gagnsæjum leikreglum sem einfaldar samfélaginu öllu að taka græn skref til framtíðar. 

Framtíðaraflþörf 

 

Önnur mál sem gleymdust eða þarfnast útskýringar 

Þó að margar jákvæðar áherslur sé að finna í sáttmálanum skortir einnig mikilvæg atriði. Hér eru nokkur þeirra nefnd. 

Málin sem gleymdust eða vantar 

Ræða þarf sjálfbærni tilfærslukerfa. Þó að aukin áhersla verði lögð á viðbrögð við hækkandi lífaldri, t.a.m. í lífeyrismálum og þjónustu við aldraða, þarf einnig að horfa til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í tilfærslukerfum. Vöxturinn var þegar orðinn mikill fyrir heimsfaraldur eins og OECD hefur bent á. Þar sem málaflokkurinn stendur nú fyrir um fjórðungi ríkisútgjalda er brýnt að tryggja sjálfbærni hans. Ræða þarf tímabil og tekjutengingu atvinnuleysisbóta á sama tíma og ekki tekst að manna störf. 

Loforð um óljósar skattalækkanir. Eftir því sem svigrúm í ríkisrekstri leyfir er óljósum skattalækkunum lofað en ekki er tilgreint sérstaklega hvernig skapa mætti slíkt svigrúm. Sagan sýnir að það svigrúm sem skapast í ríkisrekstri með auknum hagvexti er iðulega nýtt til varanlegrar útgjaldaaukningar. Endurskoða þyrfti fjármálareglur með hliðsjón af þessum raunveruleika.  

Skýrari áherslu á lækkun skulda vantar. Eftir tímabil niðurgreiðslu skulda í kjölfar fjármálaáfallsins jukust ríkisskuldir á ný á seinasta ári sem felur í sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að vaxtagjöld ríkissjóðs aukist enn frekar og eru þau orðin fimmti stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Þó að skuldahlutfall okkar sé e.t.v. ekki jafnhátt og í mörgum öðrum löndum skilur slík vaxtabyrði engu að síður minni fjármuni eftir til þjónustu við almenning og eykur áhættu þjóðarbúsins ef til frekari áfalla kemur. Hægt væri að nýta söluafrakstur af eignarhluta ríkissjóðs í fjármálakerfinu til niðurgreiðslu skulda.  

Skerpa þarf á forgangsröðun útgjalda. Nú þegar fyrirséð er að hallarekstur ríkisins mun halda áfram á næstu árum ættu stjórnvöld að setja stóraukinn kraft í að meta gæði og tilgang opinberra útgjalda. Til þess er hægt að styðjast við alþjóðlega aðferðafræði við endurmat útgjalda og hönnun gagnlegra árangursmælikvarða fyrir mismunandi málaflokka, eins og lesa má um hér. Slík tól eru mikilvæg til forgangsröðunar í ríkisrekstri og forsenda þess að skapa megi svigrúm til skattalækkana, öllum til hagsbóta.  

Í stjórnarsáttmála og framlögðum fjárlögum og fjármálastefnu kemur skýrt fram að allt traust er lagt til þess að atvinnulífið muni standa undir kröftugum hagvexti og þar með bata í ríkisfjármálum. Til að svo megi verða skiptir höfuðmáli að íslensk fyrirtæki búi við hagfellt rekstrarumhverfi. Það þýðir þó ekki að tiltekt í ríkisrekstri geti setið á hakanum. Árangurinn mun ráðast af samspili öflugs atvinnulífs og ábyrgra ríkisfjármála.