Brýnast að verja kaupmátt launa
Laun hafa hækkað umfram verðbólgu á fyrri hluta ársins og er það fjórða árið í röð sem það gerist. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins um vinnumarkaðinn og komandi kjarasamninga. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir miklar launabreytingar undanfarin ár hafa verið töluvert umfram verðbólgu og langt umfram það sem gengur og gerist í okkar samkeppnisríkjum. "Kaupmáttur hefur því styrkst mikið." Hannes segir ástæðu til að íhuga hvort forsendur eða innistæða hafi verið fyrir að hækka laun svo mikið.
"Ef svarið er að svo hafi ekki verið ætti viðfangsefnið að vera að varðveita þann árangur sem hefur náðst í stað þess að halda áfram á sömu braut sem ekki getur endað nema með einhvers konar áfalli, eins og við þekkjum úr sögunni. Sagan sýnir að sum tímabil hefur kaupmáttur aukist mikið samhliða miklum launabreytingum en í kjölfarið dregist saman aftur með veikingu gengis krónunnar."
Hannes segir óvarlegt að hækka laun umfram svigrúm atvinnulífsins.
"Það getur ekki endað vel. Raungengið hefur hækkað sem þýðir að samkeppnisstaða landsins versnar. Afleiðingin er meðal annars að það myndast ekki sá viðskiptaafgangur sem við þurfum á að halda til þess að minnka erlendan skuldavanda þjóðarinnar og styðja við gengi krónunnar."
Í íslensku atvinnulífi ríkir stöðnun ef frá er talin ferðaþjónusta.
"Hagvöxtur er lítill og nánast engar fjárfestingar í nýjum tækifærum. Vaxtastigið er allt of hátt þannig að framkvæmdir og fjárfestingar sem ella yrðu við lægra vaxtastig verða ekki að veruleika vegna mikils fjármagnskostnaðar. Við þurfum að koma okkur upp úr öldudalnum með auknum fjárfestingum. Ef við erum sammála um það hljótum við að geta sameinast um að stuðla að lágri verðbólgu og lækkandi vöxtum," segir Hannes.
Hann bendir á að spár um 4% verðbólgu næstu tvö ár byggi á þeirri forsendu að megindrifkraftur verðbólgunnar á næstunni verði launabreytingar, þ.e.a.s. að skaðleg víxlverkun launa og verðbólgu haldi áfram.
"Slíkt atferli er án tillits til þess hvort efnahagslegar forsendur séu fyrir launahækkunum. Ef þeir sem gera verðbólguspár gæfu sér að launabreytingar yrðu engar eða mjög litlar, t.d. eins og í samkeppnisríkjunum, yrðu verðbólguspárnar mun lægri og væntanlega svipaðar og gengur og gerist í öðrum ríkjum."