Bjart yfir Svörtuloftum
Þjóðríki heims hafa á fáeinum dögum lokað landamærum og sett á samkomu- og útgöngubönn vegna COVID-19. Upp er að teiknast efnahagsáfall sem er engu öðru líkt. Ekki er hægt að tala um hefðbundna niðursveiflu, hægagang eða fjármálakreppu. Algjört stopp lýsir ástandinu best þar sem seðlabankar og stjórnvöld um allan heim stíga fram með aðgerðapakka sem jafngilda allt að tugum prósenta af landsframleiðslu. Þrátt fyrir að íslenska ríkið, Seðlabankinn og bankakerfið séu að mörgu leyti í sterkari stöðu en önnur ríki til að mæta áfalli sem þessu, þá breytir það ekki því að íslenska hagkerfið er í miðju fárviðri á leið inn í niðursveiflu. Spurningin er bara hversu djúp og löng hún verður.
Í þessari miklu óvissu birti Seðlabankinn í vikunni tvenns konar sviðsmyndir um efnaghagsþróunina fyrir árið. Eina bjarta og aðra dökka mynd þar sem gert er ráð fyrir að efnahagsamdrátturinn verði á bilinu 2,4-4,8%. Fyrir utan að sviðsmyndir bankans endurspegla óvissuna illa með því að vera á fremur þröngu bili eru sviðsmyndirnar býsna bjartsýnar. Vonandi og mögulega munu þær rætast en við þurfum líka að vera raunsæ.
Í fyrsta lagi byggja sviðsmyndirnar á gömlum sviðsmyndum OECD um alþjóðlega þróun frá 2. mars. Sú veröld sem blasti við þá var gjörólík þeirri sem blasir við í dag, enda útgöngu- og ferðabönn vart til umræðu beggja vegna Atlantshafsins. Spá OECD gerir til að mynda ráð fyrir 2,4% hagvexti á heimsvísu. Til samanburðar gerir spá Oxford Economics frá 20. mars, þegar ferðatakmarkanir voru að komast á og myndin byrjuð að versna hratt, ráð fyrir 0% hagvexti og jafnvel samdrætti á árinu.
Í öðru lagi vekur athygli að samdráttur einkaneyslu, sem vegur ríflega helming í landsframleiðslunni, verði ekki meiri en 3,8% í dekkri sviðsmynd Seðlabankans. Í venjulegri niðursveiflu væri þetta talsvert högg en það sem á sér stað nú er langt í frá venjuleg niðursveifla. Skjót yfirferð yfir einkaneysluliði heimila sýnir að COVID-19 hefur víðtæk áhrif. Fastlega má gera ráð fyrir að 40% af neyslu landsmanna sé í lamasessi um þessar mundir. Hér er átt við þjónustu eins og fata- og húsgagnaverslun, veitingastaði, hárgreiðslustofur, ýmsa afþreyingu, ferðalög og fleira. Enn vantar tölur frá Íslandi en ef marka má tölur sem sjást erlendis frá gæti samdrátturinn numið tugi prósenta til skamms tíma.
Í núverandi ástandi eru heimilin að fresta neyslu sinni, en þó eru takmörk fyrir því hve hratt er unnt að vinna hana upp. Ferðalög og afþreying munu aukast á ný en það mun taka tíma. Mörg heimili verða fyrir tekjutapi um þessar mundir og þau fyrirtæki, sem heyja harða lífsbaráttu á meðan tekjur þeirra hverfa, munu ekki ná fyrri afkastagetu um leið og birtir til. Þá er sum þjónusta þess eðlis að fólk mun ekki nýta hana meira síðar, eins og að fara í klippingu. Ef við gefum okkur að einkaneysla á fyrri helmingi ársins muni dragast saman um 20% milli ára þá þarf einkaneysla að vaxa um 12% á seinni helmingi ársins til að svartasta spá Seðlabankans gangi eftir. Slíkur vöxtur hefur ekki sést í 15 ár.
Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði nýverið að í besta falli verði samdrátturinn í heiminum álíka og í fjármálakreppunni 2008. Við sjáum einnig að í Bandaríkjunum hafa umsóknir um atvinnuleysisbætur tólffaldast á einn viku og í Noregur mælist atvinnuleysi nú ríflega 10%, það hæsta frá síðari heimsstyrjöldinni. PMI-vísitölur, sem þykja gefa gott forspárgildi um hagvöxt til skemmri tíma, sýna lægstu gildi frá upphafi mælinga.
Tjónið er mikið, áhrifin víðtæk, fyrirtæki verða gjaldþrota og margir missa vinnuna eða verða fyrir tekjutapi. Skjót viðbrögð Seðlabankans og stjórnvalda skipta höfuðmáli á slíkum stundum. Mikilvægt er ákvarðanir sem nú eru teknar séu byggðar á raunsæjum forsendum. Dekkri sviðsmynd Seðlabankans er í besta falli sú bjartsýna mynd sem við blasir um þessar mundir.
Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA og Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands.
Greinin birtist á vef Fréttablaðsins 27. mars 2020.