Besta lífeyriskerfið
Ísland er með besta lífeyriskerfið í samanburði 43 ríkja með tvo þriðju hluta íbúa heimsins.
Þetta er niðurstaða alþjóðlegrar lífeyrisvísitölu sem að standa ráðgjafarfyrirtækið Mercer og CFI stofnunin, sem eru alþjóðleg samtök fjárfestingarráðgjafa.
Lífeyrisvísitala Mercers er yfirgripsmesti samanburður á lífeyriskerfum sem völ er á þar sem lagt er mat á nægjanleika, sjálfbærni og umgjörð og byggt er á samtals 50 mælikvörðum. Með nægjanleika er lagt mat á fjárhæðir lífeyris, með sjálfbærni er lagt mat á getu til að mæta lengingu ævinnar og með umgjörð er lagt mat á traust og gegnsæi í rekstri kerfanna.
Ísland er með í vísitölunni í fyrsta sinn og hefur þátttökuríkjum fjölgað hratt undanfarin ár en þau voru 11 árið 2009 og 25 árið 2015. Öll hin Norðurlöndin hafa verið með frá árinu 2014 og raðað sér í efstu sætin ásamt Hollandi og Ástralíu. Árið 2021 eru Holland og Danmörk í öðru og þriðja sæti en Noregur, Finnland og Svíþjóð í fimmta, sjöunda og áttunda sæti.
Einkunn Íslands gæti hækkað enn frekar ef skuldir heimilanna minnka (í hlutfalli við landsframleiðslu), lífeyristökualdur hækkar til samræmis við lengingu ævinnar og skuldir hins opinbera minnka. Ísland er í fyrsta sæti varðandi nægjanleika og sjálfbærni en í sjöunda sæti hvað trausta umgjörð varðar.