Balí-áætlunin er grunnur nýs loftslagssamkomulags
Aðildarríki loftslagssamnings SÞ samþykktu í desember 2007 svokallaða Balí-áætlun um aðgerðir í loftslagsmálum. Í henni fólst að sett var af stað umfangsmikið ferli til að ná heildarsamkomulagi um leiðir til að ná markmiðum loftslagsamningsins. Þetta ferli hefur nú staðið í tvö ár og fyrir liggja tillögur sem rætt verður um á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn sem hefst á mánudaginn.
Tillögurnar skiptast í sex eftirfarandi meginþætti:
-
Sameiginleg sýn um samvinnu ríkja til lengri tíma.
-
Auknar aðgerðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum.
-
Auknar aðgerðir til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
-
Aukning fjárframlaga og fjárfestinga.
-
Aukin tækniþróun og yfirfærsla tækni.
-
Auknar aðgerðir til að styrkja innviði.
Samningsskjalið sem er um 160 blaðsíður innheldur meira eða minna allar tillögur sem ríkin hafa lagt fram síðustu tvö árin en búið er að þjappa þeim saman og samræma að hluta. Engar raunverulegar samningaviðræður hafa þó farið fram um einstakar tillögur þótt á ýmsum sviðum hafi verið reynt að nálgast niðurstöðu. Af yfirlýsingum og umræðum á fundum síðustu mánaða má þó ráða að það virðist vera unnt að ná saman almennum yfirlýsingum um tækniþróun, styrkingu innviða og aðlögun að loftslagsbreytingum. Hinir raunverulegu átakapunktar verða annars vegar minnkun útstreymis gróðurhúsalofttegunda og hins vegar fjárframlög til þróunarríkja til að draga úr útstreymi, aðlagast loftslagsbreytingum og til annarra tengdra verkefna.
Kröfur þróunarríkjanna um fjárframlög frá iðnríkjunum eru verulega háar og tillögurnar ná frá 0,5% í allt að 2% af landsframleiðslu. Þetta á að vera til viðbótar þeirri þróunaraðstoð sem veitt er eftir öðrum leiðum. Auk þess er lagt til að útstreymi í iðnríkjunum verði skattlagt þróunarríkjum til handa, lagður verður skattur á skipaflutninga, flugfarseðla og að 2% gjald verði lagt á fjármagnsflutninga í iðnríkjunum. Einnig eru nefndar tölur um 75 -100 milljarða Bandaríkjadala á ári. Lagt er til að stofnaðir verði nýir sjóðir undir stjórn loftslagssamnings SÞ sem sjái um ráðstöfun fjárins til þróunarríkjanna og verkefna þar.
Það hafa ekki mörg iðnríkin brugðist við þessu en ESB gaf út yfirlýsingu í september þar sem sagt var að stór hluti fjármagnsins yrði að felast í fjárfestingum einkageirans. Alþjóðlegur markaður með útstreymisheimildir geti skapað verulegar tekjur. Opinber framlög iðnríkja geti numið um 22-50 milljörðum evra á ári frá 2020 en 9-13 milljörðum frá 2013. Þar af sé ESB reiðubúið að leggja fram 0,5 til 2,1 milljarð evra á ári frá 2013 og að þá fjárhæð megi hugsanlega hækka. Þróunarríkin telja að þetta sé allt of lítið og einnig hafa fátækari ríki ESB spurt hvers vegna þau eigi að leggja fé til þróunarríkja þegar þau eigi nóg með sig sjálf.
Um vilyrði iðnríkja til að draga úr útstreymi var fjallað í pistlinum sem birtist í gær (1. desember). Auk talnanna sem þar voru taldar upp má nefna að Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði nýlega að þar væri stefnt að því að draga úr útstreymi um 17% til 2020 miðað við 2005, 30% til 2025, 43% til 2030 og stefnt væri að 83% minnkunar útstreymis frá 2005 - 2050. Þetta beri að skoða í samhengi við að það náist víðtækt alþjóðlegt samkomulag þar sem Kína og önnur ríki þar sem efnahagur er í örum vexti taki á sig metnaðarfull (e. robust) markmið um samdrátt útstreymis. Bandaríkin hafa lagt áherslu á það allt þetta ár að markmið þeirra muni verða bundin í löggjöf heima fyrir og þeir séu tilbúnir að kynna þau markmið á vettvangi samningsins og standa við þau. En þau munu ekki taka við markmiðum sem ákveðin eru á vettvangi loftslagssamningsins án stuðnings heima fyrir.
Kínversk stjórnvöld hafa nýlega sagt að þau stefni að því að draga úr útstreymi hagkerfisins um sem svarar 40% á mælikvarða landsframleiðslu árið 2020 m.v. 2007. Því er hins vegar spáð að án aðgerða muni útstreymi í Kína aukast um tæp 60% á þessum tíma og um leið aukist landsframleiðsla um tæp 150%. Þetta felur sjálfkrafa í sér að útstreymið minnkar um það sama og kínversk stjórnvöld hafa heitið. Því hafa komið fram efasemdir um metnað Kínverja á þessu sviði.
Hvað gerist?
Danir hafa lagt gríðarlegan metnað í að ráðstefnan í
Kaupmannahöfn skili árangri. Þeir taka ekki formlega við stjórn
samninganna fyrr en á mánudag en hafa allt þetta ár verið á
endalausum fundum með þjóðarleiðtogum um allan heim. Þeim hefur
einnig tekist að fá fjölda forystumanna ríkja til að koma til
lokaviðræðnanna á ráðstefnunni 16. -18. desember, þótt Obama komi
viku fyrr. Þeir hafa verið að vinna að samningsskjali sem vera á
grunnur að einhvers konar lausn. Á þessu stigi hefur það ekki verið
gert opinbert og það er ólíklegt að það finnist endanleg niðurstaða
fyrr en alveg í blálokin á fundinum í Kaupmannahöfn. Fyrir nokkrum
dögum var sagt frá því að Brasilía, Suður-Afríka, Indland og Kína
(BASIC-ríkin) hafi verið að undirbúa valkost við tillögu Dana að
frumkvæði Kína og að þessi ríki séu þess reiðubúin að ganga út af
ráðstefnunni ætli iðnríkin að þvinga þróunarríkin til að lúta sínum
vilja.
Pétur Reimarsson