Aukin hagkvæmni í landflutningum

Rætt var um útblástur vegna flutninga á sjó og landi á upphafsfundi fundaraðar Samtaka atvinnulífsins um atvinnulíf og umhverfi. Guðmundur Nikulásson, framkvæmdastjóri innanlandssviðs hjá Eimskip flutti þar einkar áhugavert erindi um útblástur, tækni og þróun í flutningageiranum. Í máli hans kom m.a. fram að mikil framþróun hafi átt sér stað og nýting flutningatækja hafi aukist sem þýði í raun að mengun hafi minnkað á hvert flutt tonn á hvern ekinn kílómeter.

Eimskip hætti hefðbundnum strandsiglingum með Mánafossi þann 1. desember árið 2004 en vikulegum strandsiglingum frá Reykjavík til Eskifjarðar og Vestmannaeyja var haldið áfram. Flutningabílum hjá Eimskip sem annast vöruflutninga til og frá landsbyggðinni fjölgaði um 12 við þessar breytingar, eða um 20%.

Minni eyðsla - betri nýting

Í erindi sínu fjallaði Guðmundur um þá þróun sem hefur átt sér stað í landflutningum síðustu árin. Bílarnir menga minna en áður vegna þess að betri vélar eru komnar á markað, eyðsla þeirra hefur jafnframt minnkað verulega og flutningsgetan aukist stórlega. Þannig benti Guðmundur á að eyðsla bílanna hefði lækkað í um 60 lítra á hundrað kílómetra úr 80 lítrum. Á sama tíma hefur notkun á löngum aftanívögnum stóraukist. Nýting flutningatækjanna er því orðin betri og útblástursmengun hefur minnkað.

Flutningabíll

Nauðsynleg þjónusta við landsbyggðina

Flutningar á vegum landsins hafa verið töluvert í umræðunni og hefur sú hugmynd verið viðruð að réttast væri að fara með flutningana út á sjó aftur. Guðmundur benti hins vegar réttilega á að ástæða þess að skipafélögin hefðu hætt hefðbundnum strandsiglingum væri sú að þeir stæðu ekki undir sér. Í öðru lagi væru landflutningar mikilvægir vegna aukinna krafna viðskiptavina flutningafyrirtækja um þjónustustig, tíðni, ferskleika og hraða í viðskiptum. Ekki mætti heldur gleyma því að landflutningar væru lífsnauðsynlegir landsbyggðinni, þeir væru mikilvægur liður í því að jafna aðstöðumun landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Miðlægir lagerar væru staðsettir eingöngu á höfuðborgarsvæðinu og fólk úti á landi þyrfti daglega þjónustu í allri dagvöru.


Útstreymi vegna flutninga eykst fremur lítið á Íslandi

Ef horft er til útstreymis gróðurhúsalofttegunda frá flutningum á árunum 1990 til 2003 þá hefur það aukist um 15% á tímabilinu, sem er töluvert minna en meðaltalið sem er 24% og er það miðað við 15 "eldri" aðildarríki ESB. Þetta er athyglisvert því á sama tíma hefur landsframleiðsla hér á landi vaxið að raungildi um 36%, fólksbílum fjölgað um 34% og sendibílum, vörubílum og hópbílum um 70%. Fram hefur komið að aðgerðir til að auka sparneytni og minnka útstreymi frá flutningabílum er líklegri til árangurs en sértækar aðgerðir til að færa flutninga á sjó enda umfang flutninga á Íslandi minnst á EES svæðinu auk Búlagaríu og Rúmeníu. Vegalengdir hér eru tiltölulega stuttar og mikill meirihluti þjóðarinnar býr og starfar á suðvesturhorni landsins.

Guðmundur sagði Eimskip fylgjast vel með þróunarvinnu í þá átt að minnka útblástur og mengun frá bílum og þó svo að um væri að ræða t ækni sem oft væri í fyrstu hugsuð fyrir minni vélar, gæti hún með tíð og tíma ef til vill dregið stórlega úr mengun frá umferð flutningabíla. Volvo væri til dæmis komið vel á veg með þróun svokallaðrar hybrid tækni  í stærri díselvélum sem gæti minnkað eldsneytisnotkun um 35%. Slíkt myndi koma sér mjög vel fyrir flutningafyrirtæki og auk þess draga verulega úr mengun frá umferðinni.

Framtíð landflutninga

Um framtíð landflutninga og öryggi á vegum landsins benti Guðmundur á að eðlilegt væri að horfa til þróunar erlendis við mótun framtíðarstefnu í flutningum á vegum á Íslandi.  Þar nefndi hann t.d. að auka ætti leyfðan heildarþunga flutningatækja á vegunum úr 49 tonnum í 60 tonn og auka flutningsrými. Það myndi þýða færri bíla á vegunum, lægri flutningskostnað og minni mengun. Guðmundur sagði mikla þörf á betri vegum, flutningabílar væru í sjálfu sér ekki hættulegri en önnur farartæki í umferðinni, en vegir þurfi að vera nægilega breiðir til að vegfarendum líði vel innan um þá og einnig nægilega sterkir til að vegir og vegaxlir geti  borið þá. Því væri nauðsynlegt að ráðast í stórfellda uppbyggingu á íslenska vegakerfinu eins og SVÞ hafi lagt til en tillögurnar fela í sér að stofnbrautakerfi landsins verði endurnýjað á næstu 10 árum og hafist verði handa við framkvæmdir 2008. Þá benti Guðmundur á að einnig væri mikilvægt að stytta vegalengdir þar sem það auki bæði hagkvæmni og dragi úr mengun.

Kynningu Guðmundar má nálgast hér (PDF-skjal).

Næsti fundur í fundaröðinni um atvinnulíf og umhverfi verður haldinn þriðjudaginn 21. nóvember í Húsi atvinnulífsins. Rætt verður um útstreymi frá álverum.