Auka þarf hvata í lífeyriskerfinu

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og stjórnarformaður lífeyrissjóðsins Gildis, ræddi um lífeyrismál á Sprengisandi á Bylgjunni sunnudaginn 12. febrúar. Þar sagði hann m.a. að auka þurfi hvata í lífeyriskerfinu þannig að ávinningur fólks af því að greiða í lífeyrissjóðina verði meiri en nú er samanborið við greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Vilhjálmur sagði lífeyrissjóðina í raun hafa staðið af sér hrun fjármálakerfisins á Íslandi. Ný skýrsla um starfsemi sjóðanna staðfesti það. En á sama tíma er bent á ákveðna þætti sem betur mega fara í starfsemi sjóðanna og taka verður alvarlega.

Vilhjálmur benti t.a.m. á að meðalraunávöxtun Gildis síðstliðin 10 ár sé jákvæð um 2%. Þá hafi lífeyrisgreiðslur frá áramótum 2005/2006 þróast með mjög svipað og laun og verðlag þrátt fyrir áföll undanfarinna missera. Allar þessar stærðir hafi hækkað um 50-60%.

Vilhjálmur segir að tvö til þrjú góð ár þurfi í íslensku efnahagslífi til að sjóðirnir nái yfir 3,5% árs meðalraunávöxtun fjármuna sinna eins og stefnt sé að. Takist það ekki þurfi að hækka greiðslur í lífeyrissjóðina eða skerða réttindi. Þá sé inni í myndinni að hækka lífeyrisaldur í samræmi við lengri lífaldur fólks.

Hlusta má á viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við Vilhjálm hér að neðan af vef Vísis þar sem rætt er vítt og breitt um uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins, rekstur þess og mögulega framþróun.

SMELLTU TIL AÐ HLUSTA