Atvinnulífið á verkefni fyrir alla - hvatning undirrituð
Á fundi Samtaka atvinnulífsins sem fór fram í dag voru málefni einstaklinga með skerta starfsgetu í forgrunni. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA og Laufey Gunnlaugsdóttir deildarstjóri hjá Vinnumálastofnun undirrituðu hvatningu til atvinnulífsins þar sem skorað er á fyrirtæki og stofnanir að veita fólki með skerta starfsgetu tækifæri til starfa. Fram kom í máli fundargesta að mikilvægt væri að draga úr fordómum. Einstaklingar með skerta starfsgetu hefðu oft á tíðum mikið til málanna að leggja og mikla burði til að sinna störfum við hæfi.
Gestir fundarins voru einstaklingar sem hafa fengið tækifæri til starfa í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu, samstarfsfólk, foreldrar og stuðningsaðilar. Vinnumálastofnun kynnti einnig þá þjónustu sem er í boði innan stofnunarinnar og varðar málefnið. Um er að ræða faglegan og fjárhagslegan stuðning.
„Við höfum þegar nokkur dæmi um fyrirtæki sem eru að vinna mjög metnaðarfullt og flott starf þegar kemur að því að veita þessum hæfileikaríka hópi tækifæri í atvinnulífinu. Við sáum á fundinum fulltrúa fyrirtækis sem hefur til að mynda staðið vel að þessu í mörg ár sem er til einstakrar fyrirmyndar. Atvinnulífið er fjölbreytt og þar eru alls konar verkefni. Við eigum að getum fundið eitthvað verðugt fyrir alla í atvinnulífinu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA.
Á næstu misserum mun SA miðla upplýsingum til aðildarfyrirtækja og annarra sem vilja kynna sér málið. Þar geta fyrirtæki kynnt sér leiðir sem í boði eru í gegnum Vinnumálastofnun en þangað má sækja faglegan stuðning auk þess sem fjármagn fylgir verkefnum
Upptöku frá fundinum má nálgast hér:
Hér má nálgast leiðbeiningar og upplýsingar um úrræði Vinnumálastofnunar