Ársfundur atvinnulífsins 2019 - bein útsending
Tuttugu ár eru frá því Samtök atvinnulífsins voru stofnuð og verður tímamótunum fagnað á Ársfundi atvinnulífsins í dag 17. október. Bein útsending frá fundinum hefst kl. 14 hér á vefnum. Fundurinn fer fram í Eldborg í Hörpu og geta áhugasamir skráð þátttöku á vef SA þar til síðustu sætin verða skipuð.
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flytja ávörp. Þá munu Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, líta yfir farinn veg. Rýna í það sem hefur áunnist frá 1999 og draga upp mynd af þeim áskorunum sem eru framundan.
Vatnaskil urðu á Íslenskum vinnumarkaði þegar Þjóðarsáttin var gerð 1990 og á fundinum verður brugðið upp svipmynd af þessari sögulegu sátt. Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambands Íslands 1980-1992 og Þórarinn Viðar Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands 1986-1999, brjóta Þjóðarsáttina til mergjar. Nærri þrjátíu ár eru frá því samningurinn var gerður og áttatíu og fimm ár frá því VSÍ, forveri SA, var stofnað og því fjölmörg tilefni til að fagna í dag.
Gestir ársfundarins fá að gjöf eintak af nýrri bók Guðmundar Magnússonar þar sem rakin er áhugaverð saga vinnumarkaðar og efnahagslífs síðustu tveggja áratuga. Frá Þjóðarsátt til Lífskjarasamnings. Samtök atvinnulífsins 1999-2019 er heiti bókarinnar.