Árlegur ávinningur af 15.000 nýjum störfum 60 milljarðar króna
Til að Íslendingar njóti sambærilegra lífskjara og nágrannaþjóðir okkar þarf árlegur hagvöxtur á næstu árum að vera yfir 3,5% og verðbólga lág. Það er til mikils að vinna því ef það tekst að skapa skapa 15.000 ný störf á næstu fimm árum nemur árlegur ávinningur samfélagsins um 60 milljörðum króna.
Þetta er ekki fráleitt markmið því starfandi fólki fækkaði um 10.000 milli áranna 2008 og 2012. Í lok desember 2012 voru 9.500 manns á atvinnuleysisskrá, þar af höfðu 4.800 verið án atvinnu í meira en 6 mánuði og 3.300 í meira en eitt ár. Skráð atvinnuleysi á öllu árinu 2012 var 5,8% af mannafla og svaraði til þess að 9.500 manns hefðu óskað eftir fullu starfi en ekki fengið.
Á næstu árum þarf að skapa a.m.k. 10 þúsund ný störf svo að unnt verði að koma á fullri atvinnu og mæta vaxandi fjölda á vinnumarkaði. Enn fleiri störf þurfa að verða til svo unnt verði að bjóða hluta þeirra 9.000 íbúa atvinnu sem fluttu brott af landinu umfram aðflutta á árunum 2009-2012. Ef það tekst að fjölga störfum um 15 þúsund á næstu árum mun fjárhagslegur ávinningur hins opinbera og efnahagslífsins alls nema nálægt 60 milljörðum króna árlega.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýju tímariti SA sem kemur út á fimmtudaginn 31. janúar og verður kynnt á morgunverðarfundi SA í Hörpu. Fjölmargir stjórnendur munu stíga þar á stokk og benda á leiðir til að skapa fleiri og betri störf á Íslandi á næstu árum. Mikill áhugi er á fundinum og skráning í fullum gangi. Fundurinn er öllum opinn.