Ánægðari nemendur í einkareknum framhaldsskólum
Nemendur einkarekinna framhaldsskóla eru ánægðari með skólann en nemendur framhaldsskóla í opinberum rekstri, samkvæmt nýrri sænskri rannsókn. Einkum standa einkareknu skólarnir framar í að mæta ólíkum þörfum nemenda.
Rannsóknin var unnin fyrir sænsku samtök atvinnulífsins og náði hún til nemenda í fjórtán framhaldsskólum, hvar af sjö eru einkareknir en sjö eru reknir af sveitarfélögum. Alls svöruðu 889 nemendur við einkarekna skóla en 788 nemendur við skóla í opinberum rekstri.
Í einkareknu skólunum sögðust 94% aðspurðra vera ánægðir með skólann, en 6% ósátt. Í skólum sveitarfélaganna sögðust 82% vera ánægðir með skólann, en 16% eru mjög óánægðir og segjast sjá eftir að hafa valið viðkomandi skóla. Við einkareknu skólana segjast 58% nemenda geta haft áhrif á nám sitt, en einungis 32% við skóla sveitarfélaganna.
Mæta betur ólíkum þörfum nemenda.
Munurinn eykst þegar spurt er um hvernig skólarnir mæti
ólíkum þörfum nemenda. Við einkareknu skólana telja 62% nemenda að
skólinn standi sig vel í þessum efnum, en einungis 28% nemenda í
skólum sveitarfélaganna. Loks telja 81% nemenda við einkareknu
skólana að skólinn leggi sig fram við að tryggja að vel takist til
með menntun hvers nemenda, en í skólum sveitarfélaganna telja
einungis 42% að svo sé.
Skýrsluhöfundar taka fram að ákveðinn sálfræðilegur þáttur
geti virkað einkareknu skólunum í hag í slíkri könnun, þar sem
nemendur sem kosið hafi sér slíkan skóla séu hugsanlega fyrirfram
jákvæðari gagnvart honum en ella. Engu að síður telja
skýrsluhöfundar heildarniðurstöðuna marktæka, þ.e. að nemendur við
einkarekna skóla séu ánægðari með þá en nemendur skóla í opinberum
rekstri eru með sína skóla.
Sjá nánar á heimasíðu sænsku samtaka atvinnulífsins.