Ánægðara starfsfólk á einkareknum heilsugæslustöðvum
Starfsfólk einkarekinna heilsugæslustöðva er ánægðara í starfi en starfsfólk á ríkisreknum heilsugæslustöðvum og jafnframt stoltara af starfi sínu. Þetta sýnir ný sænsk viðhorfsrannsókn sem gerð var af Ipsos-Eureka fyrir sænsku samtök atvinnulífsins (SN) en þau segja fjölmörg tækifæri til umbóta innan heilsugæslu í Svíþjóð. Heilbrigð samkeppni leiði til betri heilbrigðisþjónustu.
Ánægja og bjartsýni í einkarekstri
Rannsókn Ipsos-Eureka fyrir SN sýnir að starfsfólk einkarekinna heilsugæslustöðva í Svíþjóð er ánægðara í starfi og sáttara við vinnuumhverfið en starfsfólk sem vinnur hjá hinu opinbera. Rúmur helmingur starfsfólks sem vinnur á einkareknum heilsugæslustöðvum segir vinnuumhverfi gott og álag hæfilegt en rúmur helmingur þeirra sem vinnur hjá hinu opinbera segir álag vera of mikið. Rannsókn Ipsos sýnir ennfremur að starfsfólk einkarekinna heilsugæslustöðva hefur meiri áhrif á starfsumhverfi sitt og frumkvæði þeirra nýtist betur. Aðspurðir líta rúmlega níu af hverjum tíu starfsmönnum einkarekinna heilsugæslustöðva framtíðina björtum augum, en hjá heilsugæslustöðvum sem reknar eru af hinu opinbera er hlutfallið rúmlega sex af hverjum tíu.
Heilbrigð samkeppni til bóta
Sænsku samtök atvinnulífsins benda á að með aukinni starfsánægju heilbrigðisstarfsfólks og vel reknum heilsugæslustöðvum aukist gæði umönnunar sem sé brýnt hagsmunamál fyrir sjúklinga. Augljóst sé af niðurstöðum rannsóknarinnar að tækifæri séu til umbóta innan heilsugæslu í Svíþjóð. Heilbrigð samkeppni heilsugæslustöðva um sjúklinga leiði til betri heilbrigðisþjónustu.