Ályktun Iðnþings 2017
Iðnþing Samtaka iðnaðarins fór fram í Hörpu 9. mars. Í ályktun þingsins segir m.a. að stóra verkefnið á Íslandi sé að skapa aðstæður sem uppfylli metnað fyrir góðu samfélagi og samkeppnishæfu umhverfi. Á aðalfundi SI fyrr um daginn var Guðrún Hafsteinsdóttir, endurkjörinn formaður SI til Iðnþings 2018.
Ályktunina má lesa hér í heild hér að neðan en upptaka af þinginu er einnig aðgengileg á vef SI.
Ályktun Iðnþings 2017
„Stóra verkefnið á Íslandi er að skapa aðstæður sem uppfylla metnað okkar fyrir góðu samfélagi og samkeppnishæfu umhverfi.
Efla þarf og verja stöðu íslensks iðnaðar og atvinnulífs í bráð og lengd til þess ...
... að störfum fjölgi, fjölbreytni aukist og atvinnulíf skapi þannig gott líf fyrir fólk á öllum aldri í öllum landshlutum
... að ungt og vel menntað fólk finni kröftum sínum farveg hér á landi til framtíðar
... að Ísland verði þekkt fyrir að nýta þau tækifæri sem felast í tæknibreytingum, grænum lausnum og aukinni framleiðni á öllum sviðum
Samtök iðnaðarins leggja áherslu á 12 atriði sem varða leiðina að þessu marki:
Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir áfall í útflutningstekjum og vaxandi flótta fyrirtækja úr landi samfara hraðri styrkingu krónunnar. Lækka þarf vexti, afnema höft að fullu og treysta hagstjórn.
Meiri stöðugleika þarf í gjaldmiðlamálum, meiri fyrirsjáanleika og minni vaxtamun. Það getur aðeins gerst með endurskoðun peningastefnunnar.
Einfalda þarf skattkerfið frekar, lækka jaðarskatta og færa á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað aftur upp í 100%. Það stuðlar að betri skattheimtu og dregur úr hættu á svartri atvinnustarfsemi og skattaundanskotum.
Launatengd gjöld eru há og íþyngjandi fyrir fyrirtæki. Tryggingagjald þarf að lækka hratt til sama horfs og var 2008.
Innviðafjárfestingar verður að setja í forgang og mæta þannig miklum uppsöfnuðum halla og brýnni þörf. Opna þarf á fjölbreyttari form fjármögnunar framkvæmda.
Nauðsynlegt er að auka framboð lóða og skapa hvata til byggingar ódýrra íbúða í takt við þarfir fólks. Vegna ófremdarástands á húsnæðismarkaði fá stórir hópar fólks ekki húsnæði við hæfi.
Menntun þarf að vera í betra samræmi við þarfir atvinnulífs og samfélags. Fjölga þarf verulega nemum í iðn- og verkgreinum og leggja þarf meiri áherslu á tækni- og forritunarnám í takt við tæknibreytingar.
Parísarsamkomulagið um minnkun gróðurhúsalofttegunda er krefjandi áskorun. Markmiðin munu ekki nást nema í víðtækri sátt og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs. Ísland getur tekið forystu á ákveðnum sviðum grænnar tækni.
Auka þarf raforkuöryggi um land allt og samkeppni á raforkumarkaði og innleiða þarf markaðslausnir. Nauðsynlegt er að mæta betur fjölbreyttum raforkuþörfum millistórra raforkunotenda. Á sama tíma þarf að verja samkeppnishæfni orkunotenda á Íslandi.
Umgjörð alþjóðlegrar starfsemi á Íslandi þarf að vera samkeppnishæf. Afnám hámarks á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar og efling fjármögnunarumhverfis sprotafyrirtækja eru nauðsynlegur þáttur í því.
Gagnatengingar við Evrópu og Bandaríkin eru lífæð nútíma samfélags og þekkingariðnaðar. Nýta verður tækifærin sem felast í stórbættum gagnatengingum með nýrri uppbyggingu. Tryggja þarf öryggi og gæði fjarskipta um land allt.
Endurskoðun búvörusamninga og tollasamningar við aðrar þjóðir þurfa að fela í sér jafnræði atvinnugreina, stuðning við nýsköpun og aukna framleiðni í landbúnaði, ásamt því að verja sérstöðu íslensks landbúnaðar.“