Alþjóðleg samstaða gegn skattaskjólum
„Það er óásættanlegt ef fyrirtæki og stjórnendur ganga á svig við lög og reglur og greiða ekki til samfélagsins til jafns við aðra. Það má aldrei líðast.“ Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins á Ársfundi atvinnulífsins 2016 þar sem hann ræddi m.a. um skattaskjól og aflandseyjar sem hafa verið í kastljósinu að undanförnu.
„Í grófum dráttum má segja að á slíkum stöðum sé boðið upp á tvenns konar sérstöðu þegar kemur að því að veita fjármálaþjónustu: Annars vegar mikla leynd og hins vegar skattleysi eða mjög lága skatta.“
Björgólfur sagði tilgang þess að koma eignum fyrir í aflandsfélagi væri því í flestum tilvikum annað hvort að dylja eignarhald eða koma í veg fyrir að utanaðkomandi geti komist að því hverjir eigi félagið.
„Aflandsfélagið sýslar þá með eignir en eigendurnir koma ekki fram fyrir þess hönd. Hins vegar getur tilgangurinn verið sá að komast hjá því að greiða skatta og skyldur samkvæmt lögum og reglum heimalandsins. Og í sumum tilvikum nýta aðilar sér bæði leynd og skattleysið.“
Björgólfur benti á að komið hafi fram að íslensku bankarnir hafi haft frumkvæði að stofnun mikils fjölda aflandsfélaga fyrir viðskiptavini sína á árunum fyrir bankahrunið 2008.
„Væntanlega hefur þessum félögum fækkað verulega síðustu ár og vonandi hafa margir flutt eignir sínar annað þar sem eðlilegar viðskiptareglur gilda um rekstur og skattskyldu félaga.“
Erlend fjárfesting eðlileg
Formaður SA sagði eðlilegt að Íslendingar fjárfesti erlendis þótt það sé miklum takmörkunum háð frá því sett voru höft á fjármagnsflutninga.
„Fjölmörg fyrirtæki hafa byggt upp mikil umsvif erlendis þar sem þau nýta styrkleika sína og geta náð fótfestu vegna þeirra. Einstaklingar gátu einnig fjárfest erlendis hvort sem var í verðbréfum eða tilteknum rekstri þar sem þeir hafa komið auga á möguleika til að auka verðmæti fjárfestingarinnar. Á sama hátt fjárfesta erlendir aðilar hér á landi enda er frjálst flæði fjármagns lykilþáttur í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Hins vegar verður að gera skýran greinarmun á eðlilegu flæði fjármagns þar sem allt er uppi á borðum gagnvart yfirvöldum og því sem tengist skattaskjólum. Það verður að hafa í huga að það er ekki óeðlilegt að einstaklingar og fyrirtæki nýti sér reglur í skattalögum um að fresta skattgreiðslum svo fremi að það sé innan ramma laganna. En það er óásættanlegt að menn láti sér ekki nægja eðlilegan arð af fjárfestingunni heldur séu að reyna að koma sér undan því að greiða skatta og skyldur eins og þeim ber.“
Óásættanlegt að brjóta lög og reglur
Samtök atvinnulífsins hafa fylgst með starfi Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) til að draga úr möguleikum þess að reka félög í skattaskjólum. Smám saman hefur verið að myndast alþjóðleg samstaða um að hvergi verði staðir til að fela sig í þessu skyni.
„Yfirgnæfandi meirihluti fyrirtækja og stjórnenda þeirra stunda rekstur sinn af kostgæfni, hófsemd, þrautseigju og heiðarleika eins og almennt tíðkast í daglegu lífi fólks. Ítrekað hefur komið fram í könnunum að flestir eru jákvæðir í garð íslenskra fyrirtækja og að næstum allir eru jákvæðir í garð síns vinnuveitanda.
Við viljum að á Íslandi sé rekið arðbært og ábyrgt atvinnulíf sem bætir lífskjör allra. Í kjölfar hrunsins beittu Samtök atvinnulífsins sér fyrir endurskoðun reglna um stjórnarhætti fyrirtækja. Samtökin hafa endurskoðað verklag sitt við tilnefningu fólks í stjórnir sjóða og stofnana og sett viðmið um hvernig þessar stjórnir skulu starfa. Samtökin hafa tekið einarða afstöðu gegn svartri atvinnustarfsemi og lagt sitt af mörkum til að berjast gegn henni,“ sagði Björgólfur og gerði hlé á ræðu sinni til að sýna fundargestum meðfylgjandi myndband frá OECD um aflandseyjar og skattasniðgöngu og hversu skaðleg hún er fyrir samfélög sem verða af lífsnauðsynlegum skatttekjum til að byggja upp innviði, mennta- og heilbrigðiskerfi.
Tengt efni: