Alþjóðasamfélagið verður að bregðast við loftslagsbreytingum
Ef raunverulegur árangur á að nást í baráttunni gegn loftslagsbreytingum verður að ná alþjóðlegu samkomulagi um leiðir að því markmiði. Evrópusamtök atvinnulífsins, BUSINESSEUROPE, hafa stutt markmið ESB um að takmarka útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 20% en lagt um leið áherslu á að það verði gert með þeim hætti að það dragi ekki úr samkeppnishæfni fyrirtækja í Evrópu gagnvart alþjóðlegri samkeppni. BUSINESSEUROPE gera athugasemdir við nýjar tillögur framkvæmdastjórnar ESB sem miða að því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda og auka nýtingu endurnýjanlegrar orku. Samtökin telja tillögurnar of strangar og kostnaðarsamar og aðrar leiðir farsælli.
Forseti BUSINESSEUROPE, Ernst-Antoine Seilliére, segir tillögur ESB eiga eftir að hafa mikil áhrif á evrópskan efnahag en BUSINESSEUROPE muni vinna að því hörðum höndum með ráðamönnum ESB að ná fyrirliggjandi markmiðum um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum hætti. Seilliére segir það gríðarlega mikilvægt um þessar mundir að tryggja hagsmuni iðnfyrirtækja í Evrópu og þar með orkufreks iðnaðar. Óhóflegar kostnaðarhækkanir, bæði beinar og óbeinar, geti grafið undan framtíð fyrirtækjanna. Fram hefur komið að tillögur ESB muni kosta 60 milljarða evra á ári.
SA og SI eru aðilar að BUSINESSEUROPE