Allt að 38% munur á gjaldskrám heilbrigðisnefnda
Á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir hafa tíu svæðisbundnar heilbrigðisnefndir með á höndum lögbundið heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit. Tímagjald einstakra heilbrigðisnefnda er mismunandi, en þær starfa við mismunandi aðstæður. Þó er oft erfitt að skýra þann mikla mun sem fram kemur í tímagjaldi heilbrigðisnefnda á landinu og einstökum kostnaðarliðum í rekstri stofnananna sem tímagjaldið byggist á. Þannig er tímagjaldið hæst á Suðurnesjum, 5800 kr/klst., en lægst á Kjósasvæði, 4200 kr/klst., og nemur munurinn um 38%. Aftur á móti er launakostnaður hæstur á Vestfjörðum, 4064 kr/klst. en lægstur í Reykjavík, 2701 kr/klst., sem er um 50% munur. Erfitt er að sjá hvað réttlætir þennan mikla mun.
Á meðfylgjandi myndum má sjá samanburð á gildandi tímagjaldi heilbrigðisnefnda einstakra eftirlitssvæða, og hlut launakostnaðar í tímagjaldinu.
Til að samræma sem best gjaldtöku sveitarfélaganna fyrir lögboðið heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit gefur umhverfisráðherra út leiðbeinandi reglur um uppbyggingu gjaldskráa sveitarfélaga. Þar er kveðið á um að tilgreina skuli þau ársverk sem áætluð eru fyrir heilbrigðiseftirlit eftirlitsskyldra fyrirtækja á svæðinu. Eftirlitsáætlun er gerð, sem byggir á virkum vinnustundum þeirra ársverka sem standa eiga undir heilbrigðiseftirlitinu. Margfeldi þess tíma, sem eftirlitsáætlunin ætlar í eftirlit í ákveðnum fyrirtækjaflokki, og reiknaðs tímagjalds gefur eftirlitsgjald fyrir þann fyrirtækjaflokk sem í hlut á.
Tímagjaldið er fundið með þeim hætti, að skilgreindir eru þeir kostnaðarþættir í starfsemi heilbrigðiseftirlitsins sem telja má að standi að baki þeim kostnaði sem af eftirlitinu hlýst og líta má á sem fastan eftirlitskostnað. Þessir kostnaðarliðir eru launakostnaður, húsnæðiskostnaður, skrifstofukostnaður, ferðakostnaður og annar eftirlitskostnaður. Með því að deila virkum vinnustundum viðkomandi árs, mældum í klst., upp í fastan kostnað sem stafar af eftirlitinu sama ár, fæst tímagjald fyrir hverja klst. sem fer í raunverulegt eftirlit, eða gjald fyrir útselda vinnu heilbrigðiseftirlitsins við framkvæmd eftirlitsins.
Aðkoma atvinnurekenda að framkvæmd laganna um hollustuhætti og
mengunarvarnir felst í því að atvinnurekendur tilnefna einn
fulltrúa í heilbrigðisnefndir sveitarfélaga en meirihluti fulltrúa
er kjörinn af hlutaðeigandi sveitarfélögum, eða fimm fulltrúar. Þá
skipar umhverfisráðherra níu manna hollustuháttaráð þar sem
atvinnurekendur tilnefna tvo fulltrúa. Hlutverk
hollustuháttaráðs er að fjalla um þá þætti sem falla undir lögin og
varða atvinnustarfsemi, svo sem samhæfingu krafna og
eftirlits. Ráðherra skal leita álits ráðsins um þá þætti sem
varða atvinnustarfsemi, svo sem um lagabreytingar og stefnumarkandi
reglugerðir, samþykktir og gjaldskrár.