Allt að 144% munur á gjaldskrám heilbrigðisnefnda

Fyrir um þremur árum gerðu Samtök atvinnulífsins samanburð á gjaldskrám heilbrigðisnefnda sveitarfélaga þar sem fram kom að tímagjald sem einstakar heilbrigðisnefndir lögðu til grund-vallar innheimtu eftirlitsgjalda var mjög mismunandi. Kom þá í ljós að tímagjaldið var hæst á Suðurnesjum, 5.800 kr/klst, en lægst á Kjósarsvæði, 4.200 kr/klst. Munurinn var þá um 38%. Tímagjald heilbrigðisnefndanna hefur hækkað mismikið undanfarin ár. Myndin hér að neðan sýnir hækkun tímagjaldsins frá árinu 1999 til þeirrar gjaldskrár sem nú er í gildi.

Í ljós kemur að mest hefur hækkað tímagjaldið þar sem það var lægst áður eða um 50% fyrir eftirlit á  Kjósarsvæði og um 42,5% fyrir eftirlit í Reykjavík og á svæði sem nær um Hafnarfjörð, Kópavog, Garðabæ og Álftanes. Á  sama tíma hefur neyslu-vísitala Hagstofunnar hækkað um 25%. Á Suðurnesjum hefur gjaldið hækkað minnst, um 8%.

Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig þróunin hefur verið. Tímagjaldið er nú hæst á Vesturlandi, 6.644 kr/klst, en lægst á Austurlandi, 6.000 kr/klst.  Munur á hæsta og lægsta gjaldi er þannig um 11%. 

Heilbrigðisnefndirnar innheimta einnig gjald fyrir sýni sem tekin eru til greiningar t.d. á gerlainnihaldi. 

Við samanburð á þessu sýnagjaldi sem heilbrigðisnefndirnar innheimta hjá fyrirtækjum landsins kemur í ljós að það er langhæst hjá Umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur eða kr. 12.200, en lægst hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlandssvæðis eystra, eða kr. 5.000 fyrir hvert sýni. Munurinn á hæsta og lægsta gjaldi er þannig 144% og vandséð hví þessi þjónusta er svo miklu dýrari í Reykjavík en annars staðar.

Um 300 milljónir á ári

Áætlað er að eftirlitskostnaður sem lagður er á fyrirtækin og fleiri aðila sé um 300 milljónir króna á ári eða sem svarar um 1.000 kr á íbúa. Þetta kemur misjafnlega út eftir umdæmum. 

Heilbrigðiseftirlit

kr/íbúa

 

 

Suðurnes

1.140

Hafnarfjörður, Kópavogur

Garðabær, Bessastaðahr.

 

650

Reykjavík

670

Kjósarsvæði

610

Vesturland

690

Vestfirðir

1.570

Norðurland vestra

1.390

Norðurland eystra

960

Austurland

1.490

Suðurland

1.020

Taflan var upphaflega birt með rangri túlkun a tölum um Reykjavík og er beðist velvirðingar á því.


Munur á hæsta og lægsta kostnaði er 157%.  Það er eðlilegt að þessi kostnaður sé hærri þar sem strjálbýlt er og fjarlægðir miklar en það er erfitt að skilja af hverju munurinn er svona mikill. 
 
Stuðli ekki aftur að verðhækkunum
Það er að sjálfsögðu ekki reiknað með því af hálfu SA að einstök heilbrigðiseftirlitsumdæmi í landinu noti þessa athugun til að hækka gjaldskrár sínar upp að hæsta gjaldi eins og það er nú, líkt og raunin virðist hafa orðið í kjölfar fyrri samanburðar SA. Opinber gjöld fyrir eftirlit og sýnakostnað sem lögð eru á fyrirtækin eiga að endurspegla þann kostnað sem eftirlitinu fylgir og ekkert annað. 

Samtökin munu á næstunni halda áfram að fjalla um gjöld þessi sem lögð eru á atvinnulífið í landinu. Fyrirtækin eiga þess engan kost að skjóta sér undan gjöldum fyrir opinbert heilbrigðiseftirlit og því er mjög mikilvægt að þau endurspegli þann raunkostnað sem eftirlitinu fylgir. Eins er mikilvægt að þetta eftirlit sé rekið með ítrustu hagkvæmni að leiðarljósi þannig að kostnaðurinn verði ekki meiri en hann þarf nauðsynlega að vera til að gæta þeirra hagsmuna sem eftirlitinu er ætlað.

Víða svigrúm til hagræðingar
SA hafa ítrekað bent á það, síðast í ítarlegri skýrslu í maí sl., að víða er til staðar verulegt svigrúm til einföldunar og aukinnar hagkvæmni þegar kemur að eftirliti með atvinnustarfsemi. Ávallt ber að lágmarka umfang opinbers eftirlits, einfalda það og tryggja samræmda framkvæmd eins og framast er unnt. Umbuna ber fyrirtækjum fyrir virkt innra eftirlit eða rekstur viðurkenndra gæðastjórnunarkerfa og víða má samræma leyfisveitingar og eftirlit þeim tengt. Loks ber ávallt að skoða kosti þess að bjóða framkvæmdina út á markaði, sé eigið innra eftirlit fyrirtækja ekki talið nægilegt.

Um heilbrigðisnefndir sveitarfélaga
Á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir hafa tíu svæðisbundnar heilbrigðisnefndir með á höndum heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit. Heilbrigðisnefndirnar gefa út gjaldskrár þar sem kemur fram tímagjald sem liggur til grundvallar því gjaldi sem síðan er lagt á fyrirtækin og fleiri aðila á svæði viðkomandi nefndar. Gjald sem einstök fyrirtæki greiða er mismunandi eftir því hvers eðlis starfsemin er og hve umfangs-mikil. Heilbrigðisnefndirnar innheimta einnig gjald fyrir sýni sem tekin eru til rannsókna.