Allir þurfa góða granna

Bretland er okkar næsti nágranni að frátöldum Færeyjum og Grænlandi. Nábýli þar sem fólk deilir sameiginlegum hagsmunum og auðlindum er ekki alltaf dans á rósum. Nábýlið hefur gengið vel þrátt fyrir þorskastríð og hryðjuverkalög  og verið til farsældar fyrir bæði löndin. Löng og farsæl viðskiptatengsl, samstarf á Evrópska efnahagssvæðinu og í Atlantshafsbandalaginu ásamt menningarsamskiptum og sögulega arfleifð, hafa gert Bretland að einu af okkar þýðingarmesta bandalagsríki.

Utanríkisráðherra steig mikilvægt skref á þriðjudaginn þegar hann undirritaði samning vegna útgöngu Bretlands úr EES ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein og útgöngumálaráðherra Bretlands.

Heildarviðskipti milli landanna eru um 100 milljarðar króna árlega. Um 10% útflutnings okkar er til Bretlands, eða um 60 milljarðar króna á ári. Um 300.000 breskir ferðamenn koma hingað árlega, sem er um 13% af heildarfjölda ferðamanna. Það búa um þúsund breskir ríkisborgarar hér á landi og fjöldi Íslendinga hefur búið í Bretlandi við nám og störf. Í ljósi mikilla hagsmuna Íslendinga af útflutningi til Bretlands blasir við að útganga Bretlands úr EES um áramótin skapar ákveðna ógn fyrir okkur en jafnframt tækifæri. Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðum við Breta, hefur lýst stöðunni þannig að hætta sé á að viðskipti milli landanna standi á bjargbrún.

Utanríkisráðherra steig mikilvægt skref á þriðjudaginn þegar hann undirritaði samning vegna útgöngu Bretlands úr EES ásamt utanríkisráðherrum Noregs og Liechtenstein og útgöngumálaráðherra Bretlands. Samningurinn leysir úr málum svipað og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB og þýðir að Ísland, Noregur og Liechtenstein standa nú jafnfætis ESB-ríkjunum hvað þetta varðar. Næsta skref er að ganga frá viðskiptasamningum milli landanna. Þar er mikilvægt að gætt sé að margvíslegum útflutningshagsmunum Íslands, einkum á sviði sjávarútvegs.

Útganga Bretlands úr EES á sér stað í umhverfi þegar vaxandi verndarhyggju gætir í heiminum og hætta er á viðskiptastríði milli stórvelda. Það er því mikilvægt að halda vel á málum af hálfu íslenskra stjórnvalda þannig að viðskiptasamningar við Breta náist fyrir áramótin og í góðu samstarfi við önnur ríki í Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Á meðan íslensk stjórnvöld halda áfram að nálgast þetta verkefni af röggsemi, og með frjáls viðskipti að leiðarljósi, þarf ekkert að óttast.

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2020