Allir komi að samningaborðinu

Valið stendur um verðbólgusamninga þar sem ávinningur hækkana gufar fljótlega upp, eða samræmda samninga þar sem allir koma að borðinu og hækkanir samrýmast stöðugleika. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins í dag um stöðuna á vinnumarkaði.Tilboð Samtaka atvinnulífsins er í takti við kröfu um hækkun lægstu launa.

 Umfjöllun Fréttablaðsins má lesa hér að neðan:

 „Samtök atvinnulífsins (SA) kalla eftir því að kjaraviðræður sem í gangi eru séu sameinaðar þannig að þær nái bæði til almenna vinnumarkaðarins og hins opinbera. „Þetta er bara nauðsynlegt,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA. „Ég held að svona snúin staða leysist aldrei öðruvísi en náist að eyða ákveðinni tortryggni sem ríkt hefur milli aðila með því að menn komi þá bara sameiginlega að borðinu.“ Þessi leið opni þá líka möguleika á því að verkalýðshreyfingin geri formlegar kröfur um aðkomu stjórnvalda, sem ekki hafi verið gert til þessa.

Stjórnvöld hafi þegar lýst vilja til að koma að lausn kjaradeilna með einhverjum hætti, svo sem með skattkerfisbreytingum og breytingum á húsnæðismarkaði. „En augljóst er að eigi að takast að leysa úr þessum hnút þá þurfa stjórnvöld að koma að borðinu.“ Viljinn sé fyrir hendi en á skorti sameiginlega sýn verkalýðshreyfingarinnar á því hvað eigi að felast í aðkomu stjórnvalda. 

Þorsteinn og Samtök atvinnulífsins hafa fært fyrir því rök að launahækkanir upp á 50 til 70 prósent sem farið sé fram á yfir línuna, ekki bara á lægstu laun, séu ávísun á verðbólgu og vaxtahækkanir sem á skömmum tíma komi til með að éta upp ávinninginn af launahækkunum.

„Þrjú hundruð þúsund krónurnar verða þá jafn verðlitlar og 200 þúsund krónurnar nú þegar upp er staðið,“ segir Þorsteinn. Jafn ljóst sé að stjórnvöld komi ekki til með að vilja liðka fyrir samningum sem séu ávísun á efnahagslegan óstöðugleika.