Áhyggjuefni að skuldasöfnun gæti orðið ósjálfbær
Það er áhyggjuefni að framreikningur ríkisfjármála, miðað við fyrirliggjandi hagspár, leiði að öðru óbreyttu til mikils og viðvarandi hallareksturs og skuldasöfnunar sem gæti orðið ósjálfbær ef ekki er brugðist við. Umsvif hins opinbera í hagkerfinu eru þegar mikil í alþjóðlegum samanburði. Þessi þróun er varhugaverð og kallar á skjót viðbrögð um leið og aðstæður leyfa. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn SA um fjárlög fyrir árið 2021 og fjármálaáætlun fyrir árin 2021-2025. Umsagnarfrestur á samráðsgátt stjórnvalda rann út í gær.
Í fjármálaáætlun er áhersla lögð á að bæta afkomu ríkissjóðs þegar fram líða stundir til að sporna gegn ósjálfbærri skuldasöfnun. Náist ekki markmið um að örva hagvöxt umfram spár á tímabilinu er einsýnt að þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana á tekju- og/eða útgjaldahlið hins opinbera. Slíkar ráðstafanir hafa hins vegar ekki verið útfærðar nánar, segir einnig í umsögninni þar sem imprað er á mikilvægi skýrrar framtíðarsýnar í þessum efnum.
Ljóst sé að þverpólitískt átak muni þurfa til á næstu árum til að koma jafnvægi á ríkisreksturinn. Er það álit SA að stjórnvöld þurfi að leita allra leiða til að hvetja til verðmætaskapandi atvinnustarfsemi, hagræða í rekstri svo staðið sé vörð um sjálfbærni ríkisfjármála og þeirri grunnþjónustu sem við búum við.
Í umsögninni kemur fram að það högg sem hagkerfið hefur orðið fyrir af völdum kórónuveirunnar hafi vitanlega mikil og bein áhrif á ríkissjóð. Í ljósi minni umsvifa í atvinnulífinu verði tekjur ríkissjóðs skertar svo um munar. Þá sé ljóst að samhliða vaxandi atvinnuleysi muni útgjöld vegna atvinnuleysistrygginga aukast verulega miðað við fyrri áætlanir.
Stjórnvöld hafi einnig gripið til umfangsmikilla sértækra aðgerða sem kallað hafa á mikla og ófyrirséða útgjaldaaukningu. Gerir tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu fyrir árin 2021-2025 ráð fyrir því að halli ríkissjóðs á áætlunartímabilinu verði um 900 ma.kr. Því stefni hraðbyri í skuldasöfnun og viðvarandi hallarekstur hins opinbera næstu árin, að öðru óbreyttu.
Þrátt fyrir að fram undan sé mikið ójafnvægi í ríkisfjármálum taka SA í umsögninni undir þær megináherslur sem finna má í fjárlagafrumvarpi næsta árs og fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Það sé jákvætt að sértækum og tímabundnum aðgerðum sé beitt til stuðnings þeim fyrirtækjum og heimilum sem verða illa úti af völdum heimsfaraldursins, en að samhliða sé lögð áhersla á atvinnuskapandi stefnu sem ýtir undir hagvöxt til framtíðar, styðji við viðspyrnu heimila, atvinnulífsins og þar af leiðandi ríkissjóðs á komandi árum.
Þá lýsa SA yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið meira aðhald sýnt í ríkisfjármálum á síðustu uppgangsárum. Hagsveifluleiðrétt afkomuregla hefði ef til vill komið að gagni og leggja SA til að slík regla verði innleidd samhliða öðrum breytingum.
Hér má lesa umsögn SA í heild sinni.