AGS: Efnahagsaðgerðir skilað árangri en nauðsynlegt að endurskoða umgjörð kjarasamninga

Að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa efnahagsaðgerðir stjórnvalda og Seðlabanka Íslands stuðlað að hagfelldari þróun í íslensku efnahagslífi en búist var við í upphafi faraldurs. Samstillt hagstjórn, skjót viðbrögð og vel útfærðar aðgerðir gegndu lykilhlutverki í að skapa traust og trú á íslensku efnahagslífi. Aðgerðirnar hafa stutt við stöðugleika á fjármálamörkuðum, ásamt því að styðja við bakið á heimilum og fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli. Landsframleiðslan dróst að endingu minna saman en búið var að gera ráð fyrir. 

Þá leggur sjóðurinn sérstaka áherslu á endurskoðun ramma um heildarsamninga á vinnumarkaði. Mikilvægt sé að tengja betur saman launaþróun og framleiðni til að standa vörð um samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölga störfum á ný og tryggja aukna fjölbreytni í íslensku atvinnulífi.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í árlegri úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var í gær. Þar er lagt mat á stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi. Megináherslur úttektarinnar að þessu sinni voru afleiðingar og viðbrögð hagstjórnaraðila í kjölfar heimsfaraldursins. 

Þá bendir sjóðurinn sérstaklega á að Ísland hafi verið í sterkri stöðu við upphaf faraldursins – þökk sé skynsamlegri stefnumótun og réttri forgangsröðun í stefnu ríkisfjármála og peningamála. Lág skuldastaða hins opinbera, rúmur gjaldeyrisforði, sterkur viðnámsþróttur bankakerfisins og endurbætt stjórntæki Seðlabankans hafa veitt hagstjórninni umtalsvert svigrúm til að bregðast við efnahagsáfallinu.  

Óvissan er hins vegar enn mikil og margar áskoranir fram undan. Efnahagsbatinn mun velta á því hvernig faraldurinn þróast og framvindu bólusetninga bæði innanlands og í helstu viðskiptalöndum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ítrekar mikilvægi þess að hagstjórnin verði áfram samstillt og styðji áfram við heimili og fyrirtæki, á sama tíma og staðið sé vörð um efnahagslegan stöðugleika og sjálfbærni ríkisfjármála. Nauðsynlegt sé þó að gæta gagnsæis varðandi framvindu ríkisfjármála og innleiðingu aðgerða til að halda í það traust sem skapast hefur í garð opinberra fjármála. 

Íslendingar leggi aukna áherslu á tækni og hugvit 

Faraldurinn hefur jafnframt undirstrikað mikilvægi þess að auka fjölbreytileika í íslensku efnahagslífi. Þar liggja tækifærin einna helst í tækni og hugvitstengdum greinum að mati sjóðsins. Með það að markmiði sé nauðsynlegt að skapa vaxtarbroddum gott umhverfi t.d. með minna íþyngjandi regluverki og stafvæðingu. 

Áherslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í ofangreindri úttekt eru um margt sambærilegar þeim sem Samtök atvinnulífsins hafa talað fyrir að undanförnu, nú síðast í umsögn SA um fjármálaáætlun fyrir árin 2022-2026.

Að mati SA er mikilvægt að stjórnvöld sýni áfram ábyrgð í verki og missi ekki sjónar af því erfiða verkefni sem fram undan er. Vinna þurfi ötullega að því að byggja upp efnahagslegar stoðir á ný og gefa nýjum færi á að blómstra, viðhalda trausti og gagnsæi opinberra fjármála, og skapa hagstæð skilyrði til efnahagslegs vaxtar. Til að svo megi verða þarf að leyfa kröftum einkaframtaksins að njóta sín með stuðningi frá gegnsæju regluverki, hóflegri skattheimtu og skilvirkri stjórnsýslu.