Aftur um áratug

Ísland er smáríki – lítið, opið og einhæft hagkerfi – sem byggir lífsgæði sín á fáum útflutningsgreinum. Lengst af treystu Íslendingar nær eingöngu á hrávöruútflutning sjávarafurða og landbúnaðar. Með tíð og tíma hafa aðrar greinar bæst við og vægi landbúnaðar minnkað. Þar vegur hlutur ferðaþjónustu þyngst. Árið 2018 var hlutur greinarinnar í úflutningsverðmætum 42 prósent. Árið 2019 var hlutur hennar í landsframleiðslu 8 prósent. Lítið má út af bregða. Hindranir í vegi fyrir frjálsum alþjóðlegum viðskiptum koma sér afar illa fyrir efnahag þjóðarinnar. Það er ekki síst vegna fábreytileikans sem íslenska hagkerfið hefur orðið illa fyrir barðinu á heimsfaraldri kórónuveiru.

Snertifletir faraldursins eru margir og áhrifin hafa verið misjöfn eftir atvinnugreinum. Afleiðingarnar endurspeglast til að mynda í samsetningu útflutnings vöru og þjónustu. Ferðatakmarkanir og aðrar sóttvarnaraðgerðir á landamærum settu strik í reikninginn. Hlutur ferðaþjónustu í heildarútflutningi nam aðeins 12% á liðnu ári skv. nýjustu upplýsingum Hagstofu Íslands. Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst eðli máls samkvæmt einnig umtalsvert saman og mældist aðeins 3,5%.

Leita þarf aftur til ársins 2010 til að finna viðlíka tölur. Segja má að íslenskur útflutningur hafi þannig farið aftur um heilan áratug með COVID tímavélinni.