Áformum um þreföldun sekta Seðlabankans á einstaklinga og fyrirtæki mótmælt
Í frumvarpi um gjaldeyrismál sem nú liggur fyrir á Alþingi er lögð til þreföldun á hámarki þeirra sekta sem Seðlabankanum er heimilt að leggja á aðila vegna brota á lögunum. Hámark sekta á lögaðila verði hækkað úr 75 milljónum króna í 250 milljónir og á einstaklinga úr 20 milljónum í 65 milljónir. Samtök atvinnulífsins mótmæla þessari tillögu og telja ekki efni til að hækka sektirnar, þar sem núverandi fjárhæðarmörk séu nægjanlega há til að hafa forvarnargildi.
Þau sérstöku rök sem sett eru fram í athugasemdum með frumvarpinu fyrir tillögunni um þreföldun sekta eru ósannfærandi. Þessi rök eru að brot á lögunum geti valdið óstöðugleika í gengis- og peningamálum sem leitt geti til gengislækkunar íslensku krónunnar og dregið á gjaldeyrisforða þjóðarinnar.
Gjaldeyrishöftin hafa ekki megnað að stuðla að stöðugleika gengis krónunnar eins og þróunin á þessu ári hefur glögglega sýnt. Þá valda gjaldeyrishöftin því að viðskipti á gjaldeyrismarkaði eru takmörkuð þar sem þeir sem afla gjaldeyris skipta sem minnstu í íslenskar krónur og leggja hann fremur inn á gjaldeyrisreikninga. Þá verður innstreymi gjaldeyris minna en ella þar sem gjaldeyrishöftin fæla erlendar fjárfestingar frá landinu, enda er tilvist þeirra yfirlýsing um að peningamálin séu í miklum ólestri hér á landi og engu treystandi.
Hækkun sektarfjárhæða er einnig úr takti við þá ákvörðun Alþingis að afnema gjaldeyrishöftin fyrir 31.12. 2013, eða innan 20 mánaða, sbr. ákvæði til bráðabirgða með lögum 87/1992.
Samkvæmt frumvarpinu eru Seðlabankanum veittar enn frekari heimildir til öflunar upplýsinga en skv. gildandi lögum. Gerð er tillaga um að bankinn fái heimildir til öflunar allra þeirra upplýsinga sem hann telur sig þurfa til að sinna eftirliti, en samkvæmt gildandi lögum hefur hann heimild til öflunar upplýsinga er lúta að gjaldeyrisviðskiptum. Þá er bankanum veitt heimild til að afla upplýsinga frá aðilum sem hafa verið í viðskiptum við þann aðila sem er til rannsóknar, sbr. ákvæði frumvarpsins:
"Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um ...".
Þessi fyrirhugaða grundvallarbreyting, sem gengur mjög nærri einkamálefnum einstaklinga og lögaðila og rétti þeirra til friðhelgi einkalífs, er nánast órökstudd í greinargerð með frumvarpinu. Í umsögn NASDAQ OMX (Kauphallarinnar) er farið hörðum orðum um áformaða rýmkun á heimildum Seðlabankans til öflunar upplýsinga og leggst hún alfarið gegn þeim. Samtök atvinnulífsins taka fyllilega undir þau sjónarmið sem sett eru fram í umsögn Kauphallarinnar.
Sjá nánar:
Umsögn SA um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, 731. mál.