Af stað með Vaðlaheiðargöng
Umræðan um Vaðlaheiðargöng er orðin löng og ströng eins og oft vill verða um framkvæmdir í samgöngumálum. Samtök atvinnulífsins hafa hvatt mjög til þess að ráðist verði í þessa framkvæmd þannig að notendur greiddu sérstakt gjald fyrir notkun á göngunum sem stæði undir kostnaðinum við gerð þeirra.
Vaðlaheiðargöng eru þörf framkvæmd en vissulega má segja það sama um flestar aðrar samgönguframkvæmdir. Göngin eru mikil samgöngubót bæði vegna styttingar leiðarinnar frá Akureyri í Fnjóskadal og austur um og eins vegna erfiðrar vetrarfærðar um Víkurskarð.
Löng reynsla er fyrir mati á arðsemi samgönguframkvæmda hér á landi sem er einn helsti útgangspunkturinn í vali á framkvæmdaröð. Ekki er þetta þó eini mælikvarðinn því oft er andstaða við hagkvæmar framkvæmdir og einnig eiga önnur sjónarmið rétt á sér, s.s. tenging byggðarlaga og almenn uppbygging vegakerfisins þar sem vegir eru ófullkomnir.
Samtök atvinnulífsins telja æskilegt að ráðast í opinberar framkvæmdir þegar ládeyða er í atvinnulífi og á vinnumarkaði en fresta þeim á þenslutímum. Þetta er almennt talið efnahagslega skynsamlegt. Við gerð stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins á árinu 2009 var í því ljósi sammælst um að ráðast í sérstakar samgönguframkvæmdir.
Vandi ríkissjóðs er öllum kunnur og almennur skilningur ríkir á þeirri þörf að ná niður fjárlagahalla og stemma stigu við skuldasöfnun ríkisins. Þess vegna var bent á samgönguframkvæmdir eins og Vaðlaheiðargöng sem hafa þann kost að notendur greiða kostnaðinn, auk þess sem framkvæmdin er vel undirbúin og unnt er að ráðast í hana með skömmum fyrirvara.
Nú hefur umræðan og andstaðan gegn göngunum snúist fyrst og fremst um að hætta sé á að hluti kostnaðarins falli á ríkissjóð þegar fram líða stundir. Vissulega eru allar forsendur óvissu háðar og auðvelt að stilla upp svo dapri framtíðarsýn að slíkt gerist. Orkuverð getur haldið áfram að hækka og dregið úr umferð, hugsanlega verður ekki rekinn nagli í fjöl í Þingeyjarsýslum á næstu áratugum, kannski er Norðausturhornið á leið í eyði og jafnvel finnst ótrúlega mörgum leiðin um Víkurskarðið svo fögur að þeir vilja ekki aka um Vaðlaheiðargöng fyrir nokkurn mun. Nú, svo geta vextir rokið upp úr öllu valdi. Allt getur orðið óhamingju Íslands að vopni.
En umræðan og andstaðan kemur aldrei að kjarna málsins. Hann er sá að það er verkefni ríkisins að annast samgönguframkvæmdir, Vaðlaheiðargöng sem aðrar framkvæmdir. Um leið og notendurnir þurfa að greiða fyrir notkun ganganna breytast allar arðsemisforsendur ríkisins. Það liggur fyrir að göngin munu á einhverjum tíma renna til ríkisins. Endurgjaldslaust ef notendurnir hafa greitt allan kostnaðinn. En takist ekki að ná öllum kostnaðinum til baka með notendagjöldum verður raunverulegur fjárfestingarkostnaður ríkisins hverfandi í hlutfalli af heildarkostnaði við framkvæmdina.
Það þarf að taka ákvörðun miðað við að kostnaður ríkisins við göngin verði ýmist enginn eða hverfandi þegar væntanleg arðsemi af göngunum er metin. Ekki leikur nokkur vafi á því að göngin munu reynast ríkinu arðsöm. Það á ekki að taka kostnað notendanna inn í arðsemisreikninginn fyrir ríkið, sérstaklega ekki í þessu tilfelli, þar sem notendum er í sjálfsvald sett hvort þeir fara göngin eða upplifa hina fögru leið um Víkurskarð. Þá ber til þess að líta að almennur stuðningur er við göngin í nágrenni ganganna, þ.e. í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Almenn ósk er um það á þessu svæði að fá að greiða sérstaklega fyrir göngin.
Það er óskandi að Alþingi finni flöt á því að koma þessari framkvæmd af stað. Afar lítil áhætta er tekin fyrir fjárhag ríkissjóðs miðað við samfélagslega þýðingu Vaðlaheiðarganganna.
Vilhjálmur Egilsson