Af launakjörum sjómanna
Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal fulltrúa sjómanna að undanförnu samkvæmt fréttum frá Alþýðusambandi Íslands, en umkvörtunarefnið er að þeir hafi ekki fengið að njóta góðrar afkomu fiskveiða á undanförnum árum á meðan kjarasamningar hafa verið lausir. Með þessu er í raun verið að ýja að því að heppilegra væri fyrir sjómenn að laun þeirra væru tengd afkomu veiðanna en ekki tekjum eins og hingað til hefur tíðkast. Færa má rök fyrir því að slíkt væri í raun heppilegra fyrir útgerðir þar sem að sjómenn bæru þá einnig með þeim þá áhættu sem liggur á kostnaðarhliðinni.
Ytri skilyrði hafa verið hagstæð í fiskveiðum upp á síðkastið, aflaverðmæti hátt, olíuverð lágt, gengið veikt og þorskstofninn hefur vaxið. Hefur það skilað sér í góðri afkomu. Sjómenn hafa notið þessa góða gengis en hlutfall launa þeirra af heildarverðmætasköpun fiskveiða árið 2013 var 65% sem er töluvert hærra en í öðrum fjármagnsfrekum greinum og ívið hærra en meðaltal allra atvinnugreina.
Laun sjómanna skiptast í aflahlut og önnur laun. Aflahluturinn er hlutfall af tekjum fiskveiða og þar með eru laun beintengd aflaverðmæti, gengisþróun og lönduðu magni. Launin taka hins vegar ekki mið af kostnaði við veiðarnar þ.e. olíuverði, veiðigjöldum og viðhaldskostnaði svo dæmi séu tekin. Að undanskildu olíverðstengingu sem þó hefur ekki verið virk í 10 ár þar sem að olíuverð er enn þá sögulega hátt. Launin eru þar af leiðandi ekki beintengd vergum rekstrarhagnaði veiðanna heldur aðeins tekjunum. Til lengdar ætti það aftur á móti að vera sjómönnum hagfellt þar sem sveiflan í afkomunni er mun meiri en sveiflan í tekjunum eins og myndin hér að neðan sýnir.
Frá árinu 2008 hefur tekjuþróun í fiskveiðum verið afar hagfelld og hafa sjómenn notið góðs af. Kaupmáttur meðallauna þeirra hefur aukist um 6,5% frá árinu 2008 en á sama tíma dróst kaupmáttur meðallauna á almennum vinnumarkaði saman um 2,7%. Á árinu 2014 var loðnuveiði lítil á sama tíma og gengi krónunnar styrktist. Af þessum sökum lækkuðu meðallaun sjómanna það árið enda drógust tekjur af veiðum saman um 25 ma.kr. eða 15% á föstu verðlagi.
Eins og réttilega hefur verið bent á eru laun sjómanna ekki beintengd afkomu en þau ráðast aftur á móti af tekjum af fiskveiðum. Sjómenn fá yfir 65% af verðmætasköpuninni í sinn hlut en deila áhættunni af aflamagni, afurðaverði og gengisþróun með vinnuveitanda sínum. Þeir þurfa aftur á móti ekki að hafa áhyggjur af kostnaði við veiðarnar sjálfar. Þegar mikið veiðist og aflaverðmæti er hátt hækka laun sjómanna sjálfkrafa en á sama hátt lækka þau þegar ástand sjávar er slæmt eða aflaverðmæti dregst saman. Laun þeirra taka hins vegar ekki mið af breytingum í kostnaði við veiðarnar sem oft er sveiflukenndur. Hvort óánægjan væri eins mikil ef kostnaður við fiskveiðar væri hærri og afkoman lakari látum við liggja milli hluta.