Aðstoð vegna stuðningslána og lokunarstyrkja
Lög um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna kórónuveirufaraldursins var samþykkt á Alþingi í gær. Markmið laganna er að styðja minni fyrirtæki sem urðu fyrir tímabundnu tekjufalli vegna áhrifa COVID-19 eða aðgerða stjórnvalda í viðleitni þeirra til að hefta útbreiðslu veirunnar. Upplýsingar um skilyrði til þess að fyrirtæki falli undir þessi úrræði og helstu atriði má finna hér.
Stuðningslán eru ætluð minni fyrirtækjum sem orðið hafa fyrir miklum samdrætti og lokunarstyrkir þeim sem gert var að leggja niður starfsemi vegna sóttvarnarreglna. Afgreiðsla lánsumsókna fyrir stuðningslán mun fara í gegnum viðskiptabanka en nánari upplýsingar um umsóknarferli lokunarstyrks ættu að birtast fljótlega á vefnum island.is.
Skilyrði úrræðanna eru skýr að undanskildu skilyrði stuðningslána um rekstrarhæfi umsækjanda þegar áhrif COVID-19 eru liðin. Upplýsingar um viðmið lánastofnana við mat á rekstrarhæfi liggja ekki fyrir.
Fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn eru heilbrigð, lífvænleg og rekstrarhæf og hafa alla burði til að takast á við tímabundinn rekstrarvanda vegna COVID-19, fái þau aðstoð til þess.
Litla Ísland aðstoðar aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins við að greina og styrkja rekstur sinn sem og við gerð rekstrarúttektar án endurgjalds. Viðskiptabankar munu þurfa að fá greinargóðar upplýsingar um reksturinn til að geta metið hvort umsækjandi uppfylli skilyrðið um rekstrarhæfi að loknum áhrifum COVID-19.
Hægt er að fá aðstoð við greiningu og val á úrræðum fyrir reksturinn með því að bóka tíma í rekstrarráðgjöf Litla Íslands.