Aðlögun innflytjenda

Vanda verður til verka við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi. Þeir verða að fá sömu tækifæri og heimamenn til menntunar og virkrar þátttöku. Það kallar á aðgerðir, bæði stjórnvalda og atvinnulífs.

Á síðustu fimm árum, árunum 2015-2019, fjölgaði störfum, sem starfsfólk á aldursbilinu 20-59 ára sinnti, um 22.000. Af þeim voru Íslendingar aðeins 2.000 en innflytjendur 20.000.

Á þessu tímabili fjölgaði íbúum á aldrinum 20-59 ára einnig um 22.000. Af þeim voru Íslendingar 1.000 og innflytjendur 21.000.

Reynslan frá tíma fjármálakreppunnar sýnir að flestir innflytjendur ílengjast hér þótt atvinnuástand versni um hríð. Það er eins gott því að á komandi árum verður þörf fyrir enn fleiri innflytjendur.

Hver árgangur ungs fólks sem kemur inn á vinnumarkaðinn er um 4.500 manns en árgangar þeirra sem eru á síðasta hluta starfsævinnar eru um 4.000. Mismunurinn er um 500 manns. Að teknu tilliti til dánartíðni og miklum flutningum Íslendinga til útlanda fjölgar Íslendingum ekki á vinnumarkaðnum.

Hagvöxtur krefst fleiri starfsmanna og fjölgun innflytjenda var óhjákvæmileg í uppsveiflu síðustu ára. Atvinnulífið í núverandi mynd hvílir að stórum hluta á framlagi þeirra.

Staðan er sú að næstum fjórði hver starfsmaður á aldrinum 20-59 ára er innflytjandi samanborið við 7% árið 2005.

Reynslan frá tíma fjármálakreppunnar sýnir að flestir innflytjendur ílengjast hér þótt atvinnuástand versni um hríð. Það er eins gott því að á komandi árum verður þörf fyrir enn fleiri innflytjendur.

Samskipti Íslendinga og innflytjenda fara yfirleitt fram á ensku. Setja þarf skýra stefnu um hvernig hlúð verður að tungumálinu. Samfélagið þarf að aðstoða fjölskyldur, sem hingað flytja í atvinnuleit, við að festa rætur, meðal annars með því að tryggja sem bestan aðgang að íslenskukennslu. Styðja þarf sérstaklega við börn innflytjenda svo þau standi jafnfætis innfæddum.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Markaði Fréttablaðsins 4. mars 2020.