Aðild atvinnulífsins að stjórnum lífeyrissjóða styrkir þá

Aðild Samtaka atvinnulífsins að stjórnum lífeyrissjóða sem samtökin og forverar þess hafa haft forystu um að byggja upp ásamt verkalýðshreyfingunni með kjarasamningum á mörgum áratugum hefur orðið ýmsum að umræðuefni. Sumir hafa viljað ýta fulltrúum Samtaka atvinnulífsins út úr stjórnum sjóðanna ýmist með eða án þess að taka alfarið upp beinar kosningar sjóðsfélaga til stjórnanna.

Lífeyrissjóðir landsmanna eiga sér langa og merka sögu og sem rekja má til meira en aldargamalla ákvarðana Alþingis um eftirlaun til ákveðinna einstaklinga og síðar til þróunar almenns eftirlaunakerfis opinberra starfsmanna, einstakra fyrirtækja og starfsstétta. Á erfiðleikaárunum í lok 7. áratugar síðustu aldar hófst svo hin eiginlega uppbygging almennra lífeyrissjóða með kjarasamningum milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar. Sjóðirnir hafa síðan þróast áfram og starfa nú á grundvelli laga frá 1997 þar sem meginatriði kjarasamnings SA og ASÍ um lífeyrismál voru lögfest og þannig einnig látin gilda um þá sem standa utan stéttarfélaga.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa um langa hríð talið það mikilvægt samfélagslegt verkefni að tryggja starfsfólki fyrirtækja eftirlaun. Meginmarkmiðið er að uppfylla að drjúgum hluta þarfir fólks fyrir ellilífeyri og áfallatryggingar, s.s. örorkulífeyri, makalífeyri og barnalífeyri.

Aðilar vinnumarkaðarins hafa unnið náið saman að þessu verkefni og nálgast það af fullri ábyrgð með langtímahugsun að leiðarljósi. Þannig er lífeyrissjóðakerfið byggt á sjóðssöfnun og staða þess hefur smám saman styrkst. Sjóðirnir hafa stækkað og hlutur lífeyrissjóða í lífeyrisgreiðslum hefur vaxið. Nú fá allir aldurshópar ellilífeyrisþega að meðaltali hærri greiðslur úr lífeyrissjóðum en frá almannatryggingum. Almennt séð er íslenska lífeyrissjóðakerfið talið eitt það besta í alþjóðlegum samanburði og eitt af því sem Ísland getur státað sig af í samfélagi þjóðanna.

Lífeyrissjóðakerfið er að sjálfsögðu ekki fullkomið frekar en önnur mannana verk og þarf að vera í sífelldri þróun. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa markað þá stefnu að hækka inngreiðslur í lífeyrissjóði á almennum vinnumarkaði úr 12% í 15,5% á 7 árum í næstu kjarasamningum. Markmiðið er að allt vinnandi fólk búi við sambærileg lífeyrisréttindi úr lífeyrissjóðum. Unnið hefur verið að því með aðilum opinbera vinnumarkaðarins að skapa forsendur fyrir því að hægt sé að hrinda þessari stefnu í framkvæmd.

Samtök atvinnulífsins hafa litið á það sem hlutverk sitt að taka virkan þátt í þessu samfélagslega verkefni vinnumarkaðarins. Með því hafa samtökin tekið ákveðna ábyrgð á framþróun lífeyrissjóðakerfisins þannig að það tryggi starfsfólki á almennum vinnumarkaði þann lífeyri sem endurspeglar almennan vilja og þarfir samfélagsins.

Þess vegna sitja fulltrúar Samtaka atvinnulífsins í stjórnum lífeyrissjóða til jafns við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar. Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins í stjórnum lífeyrissjóða hafa það eina markmið að hlúa að sjóðunum sjálfum þannig að þeir uppfylli hlutverk sitt sem best gagnvart þeim sem njóta lífeyrisréttindanna. Þá er það atvinnulífinu mikið hagsmunamál að lífeyrisiðgjöld ávaxtist vel því ef svo fer ekki mun það endurspeglast í auknum álögum á fyrirtækin í formi hærri iðgjalda eða skatta í framtíðinni.

Ef aðkoma Samtaka atvinnulífsins að stjórnum lífeyrissjóða er afþökkuð með lagasetningu eða á annan hátt hlýtur hlutverki vinnumarkaðarins og kjarasamninga að vera lokið í rekstri og uppbyggingu lífeyrisjóðanna. Þá munu íslensk fyrirtæki líta á framlög í lífeyrissjóði sem hvern annan skatt en ekki umsamdar greiðslur til mikilvægra sameiginlegra verkefna með starfsfólki sínu og samtökum þess. Þá liggur beinast við að ríkið hafi forystu um þróun lífeyrissjóðakerfisins.

Ýmsir vilja losna við aðila vinnumarkaðarins úr stjórnum lífeyrissjóða og fela ríkinu meginábyrð á þróun og rekstri lífeyrissjóðakerfisins. Með því verða aðilar vinnumarkaðarins ekki lengur bakhjarlar lífeyrissjóðanna og sjóðirnir sjálfsagt meðfærilegri á ýmsan hátt. Aðilar vinnumarkaðarins hafa mjög oft, einkum á árunum eftir efnahagshrunið, þurft að standa gegn margháttaðri viðleitni og tillögum stjórnmálamanna um breytingar sem hefðu bakað lífeyrissjóðunum kostnað og tjón og með því skert greiðslur til lífeyrisþeganna. Sameiginlega mynda aðilar vinnumarkaðarins samfélagslegt afl sem oft hefur skipt miklu máli fyrir farsæla uppbyggingu lífeyrissjóðanna.

Mikið vantar upp á að ríkið hafi sýnt fulla ábyrgð við uppbyggingu lífeyriskerfis sinna starfsmanna. Það kerfi er rekið með verulegum tryggingafræðilegum halla og skuldbindingum velt yfir á framtíðina. Þegar ríkið tekur sig til og skattleggur almenna lífeyrissjóði eru það aðilar vinnumarkaðarins sem standa gegn skattheimtunni og hafa afl til að mynda mótvægi við ríkið.

Samtök atvinnulífsins telja að aðild þeirra að stjórnum lífeyrissjóða hafi verið mjög til góðs fyrir uppbyggingu lífeyrissjóðakerfisins og skipt sköpum við að efla sjóðina til þess að gegna hlutverki sínu. Samtökin leggja ofurkapp á að fulltrúar þeirra í stjórnum sjóðanna gæti almennra hagsmuna sjóðanna sjálfra og vinni af fullum heilindum fyrir þá sem njóta lífeyrisréttinda og allt samfélagið.

Vilhjálmur Egilsson

Fréttabréf SA: Af vettvangi í febrúar 2012