Aðhalds er þörf hjá hinu opinbera
Aðhalds er þörf eru varnaðarorð Samtaka atvinnulífsins til ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu framlagðrar fjármálaáætlunar til næstu 5 ára, eða ársins 2022. Ekki svo að skilja að þörf sé á blóðugum niðurskurði í grunnstoðum, heldur virkari forgangsröðun og betri nýting opinberra fjármuna. Þegar bakslag kemur í hagkerfið þá sýnir reynslan að erfitt er að draga úr útgjöldum þegar tekjurnar dragast saman.
Ísland áfram háskattaland
Fjármálaáætlunin byggir á bjartsýni, kröftugum hagvexti allt tímabilið sem þegar er orðið hið lengsta hagvaxtartímabil í sögu Íslands. Áfram er gert ráð fyrir að Ísland verði háskattaland þar sem skattbyrðin er með því mesta sem gerist meðal ríkja OECD. Útgjöldin eiga að aukast jafnt og þétt þrátt fyrir mikla eftirspurnarþenslu og spennu í hagkerfinu. Ríkið ætlar að kynda undir þensluna.
Það er ámælisvert að ekkert formlegt samráð hafi átt sér stað við samtök eða fyrirtæki í ferðaþjónustu um áform ríkisstjórnarinnar um verulega hækkun á virðisaukaskatti.
Í áætlunina er erfitt að festa hendur á stefnumarkandi sýn til framtíðar. Eru fyrirhugaðar breytingar á VSK-kerfinu liður í að taka upp eitt samræmt skattþrep? Hver eru þá næstu skref? Hvernig á að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu innviða í samgöngum og heilbrigðisþjónustu? Á áhersla á tiltekið rekstrarform áfram að yfirskyggja kröfur um hagkvæmni og árangur? Þrátt fyrir að skattheimta hér sé mikil í bæði alþjóðlegum og sögulegum samanburði þá dugar hún rétt til að halda ríkissjóði réttu megin við núllið.
Lítið má út af bregða til að birtu taki að bregða á góðærishimni. Eins prósentustigs minni hagvöxtur færir til dæmis rekstrarafgang í halla á síðari hluta tímabilsins.
Illa undirbúnar breytingar
Það er mikilvægt að virðisaukaskattstofninn sé sem breiðastur, hlutfallið sem lægst og að stuðla að stækkun hans með meiri umsvifum. Það er hins vegar ámælisvert að ekkert formlegt samráð hafi átt sér stað við samtök eða fyrirtæki í ferðaþjónustu um áform ríkisstjórnarinnar um verulega hækkun á VSK. Ekki er viðunandi hve fyrirtækjum í ferðaþjónustu er ætlaður skammur tími til að aðlaga sig þessari hækkun. Þá verður að meta áhrifin skattabreytinganna á rekstur fyrirtækja eftir stærð þeirra og staðsetningu. Það er ámælisvert hversu illa fyrirhugaðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu eru undirbúnar.
Stjórnvöld verða að hefja viðræður við fyrirtæki í ferðaþjónustu til að skapa sátt um skattalegar aðgerðir sem tryggja áframhaldandi styrkingu skattkerfisins og ferðaþjónustunnar sem eina af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar.
Tryggingagjaldið hefur hamlandi áhrif á samkeppnisrekstur fyrirtækja og dregur úr getu þeirra til að fjölga starfsfólki og stunda þróunarstarf.
Tryggingagjaldið lækki
Rétt er að minna enn og aftur á loforð stjórnvalda um að lækka tryggingagjaldið niður í það sem það var fyrir hrun viðskiptabankanna. Tryggingagjaldið hefur hamlandi áhrif á samkeppnisrekstur fyrirtækja og dregur úr getu þeirra til að fjölga starfsfólki og stunda þróunarstarf. Gjaldið var hækkað tímabundið árin 2009 og 2010 úr 5,34% í 8,65% til að mæta verulegu tekjutapi ríkissjóðs. Lækkun gjaldsins nú er ekki einungis efndir á loforði sem stjórnvöld gáfu þegar fyrrnefndar hækkanir áttu sér stað heldur er það mikilvæg og viðurkennd forsenda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði sem gerðir voru í upphafi árs 2016 svo að fyrirtæki geti mætt umsömdum launahækkunum og hækkun lífeyrisiðgjalda úr 8% af launum í 11,5% án frekari verðþenslu.
Tekjur í sögulegu hámarki
Útgjöld ríkisins hafa á núverandi hagvaxtarskeiði vaxið hraðar en á þensluárunum fyrir árið 2008. Eigi að auka útgjöld til heilbrigðismála, almannatrygginga, menntamála og samgöngumála verður það ekki gert með aukinni skattheimtu þar sem tekjur hins opinbera eru í sögulegu hámarki. Svigrúm til útgjalda verður að skapa með því að nýta betur fé til ráðstöfunar innan viðkomandi málaflokka eða draga úr útgjöldum til annarra málaflokka. Þá má leita út fyrir hið opinbera með fjármögnun á uppbyggingu innviða.
Einkarekstur verði nýttur
Nauðsynlegt er að skoða kosti sameininga og fjölbreytts rekstrarforms hjá hinu opinbera án þess að það komi niður á aðgengi þeirra sem rétt eiga á þjónustu. Í þeim tilvikum þar sem slíkt hefur verið reynt hefur fjárhagslegur ávinningur verið augljós, enda er þjónustan skilgreind á grundvelli gæða, magns og verðs. Í flestum tilvikum má einu gilda fyrir hið opinbera eða þann sem nýtur þjónustunnar hvort það sé opinber aðili eða einkaaðili sem veitir þjónustuna svo fremi sem gæði og verð séu sambærileg.
Áhætta minnkuð
Þá er eðlilegt að ríkissjóður dragi úr eigin áhættu með því að einkaaðilar taki að sér uppbyggingu og þjónustu við flugfélög á Keflavíkurflugvelli líkt og á sér stað í nálægum löndum. Áætlanir um gríðarlegar fjárfestingar á næstu árum og áratugum til að takast á við sívaxandi fjölda ferðamanna eru áhættufjárfestingar sem byggja á spám flugfélaga um þróun í þeirra rekstri. Eins og dæmin sanna geta riðið yfir flugheiminn ýmis áföll sem geta valdið því að spár ganga ekki eftir bæði til lengri og skemmri tíma.
Verkefnafjármögnun nýtt
Á mun fleiri sviðum má nýta verkefnafjármögnun til að ráðast í uppbyggingu innviða þar sem notendur standa undir betri þjónustu með greiðslu gjalds. Unnt er að byggja Sundabraut, hraðbraut austur fyrir fjall, ljúka við Reykjanesbraut með svipuðum hætti þar sem notendur greiða fyrir betri þjónustu, tímasparnað og aukið öryggi. Ríkið semur þá um verkefnið við þá sem taka að sér fjármögnun, byggingu, viðhald og rekstur.
Auðvelt er að læra af nágrannaþjóðum hvernig best er að standa að verkefnum sem þessum. Þannig hafa Norðmenn langa reynslu á þessu sviði.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í apríl 2017.