Aðhalds er þörf

Samtök atvinnulífsins hafa lagt mat á áform í stjórnarsáttmálanum um aukin útgjöld og uppbyggingu á fjölmörgum sviðum eins og fram hefur komið. Ef staðið væri við öll fyrirheit gætu árleg útgjöld vaxið um 32 milljarða króna. Fjárfestingar og einskiptisútgjöld gætu numið allt að 55 milljörðum króna á ári þegar allt er talið.

Nú er ekki skynsamlegur tímapunktur til að auka verulega útgjöld ríkissjóðs. Nær væri að halda áfram að lækka skuldir. Vaxtakostnaður ríkisins er nú þegar sá þriðji hæsti meðal iðnríkja. Íslenska ríkið greiðir 4% af landsframleiðslu í vexti. Samtök atvinnulífsins hafa lengið kallað eftir aðhaldi í rekstri ríkisins og lýst áhyggjum af mikilli aukningu ríkisútgjalda.

Enginn vafi er á að þörf er á fjárfestingu víða. Augljóst er þó að ekki verður hafist handa við öll verkefnin á sama tíma og að þau munu ekki öll standa yfir allt kjörtímabilið. En SA leggja áherslu á að mikilvægt er að ganga hægt um gleðinnar dyr og hafa borð fyrir báru. SA hafa varað við miklum útgjaldavexti í núgildandi fjármálaáætlun og ítrekað nauðsyn þess að greiða niður skuldir, lækka vaxtakostnað ríkissjóðs og búa í haginn til að geta tekist á við tímabil þegar þrengir að.

Það þarf að hafa í huga að stjórnarsáttmálinn er almennt orðaður, það heyrir til undantekninga að loforð séu tímasett og hvergi eru þau kostnaðarmetin. Það er galli.

  • Aukning ríkisútgjalda mun ekki eiga sér stað í einu vetfangi og það hefur legið fyrir frá fyrstu stundu.
  • Augljóst er af samhenginu að aukning ríkisútgjalda mun ekki koma fram í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, nema að takmörkuðu leyti.
  • Útgjöld til samgangna, fjarskipta og byggðamála munu aukast einna mest. Þar munar mestu um innviðafjárfestingu sem fjármagna á með eignatekjum ríkisins. Öllum er það ljóst að hér er um fjárfestingu að ræða en ekki viðvarandi aukningu ríkisútgjalda.
  • Ef litið er til stjórnarsáttmálans og yfirlýsinga í aðdraganda kosninga má ætla að fjárfestingar í innviðum nemi um 100 milljörðum króna. Jafngildir það 25 milljörðum króna á ári út kjörtímabilið þótt þeim sé ekki jafndreift á milli ára.

Þótt vel hafi gengið á þessu ári og tekjur ríkissjóðs reynst meiri en ætlað var þá er ástæða til að hafa áhyggjur af því að útgjaldaaukning ríkisins ýti undir þenslu, að launaskrið aukist og að erfitt reynist að halda aftur af launakröfum og hækkunum á vinnumarkaði bæði hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum. Afleiðingarnar geta orðið þær sem við þekkjum svo vel, enda er hagsaga Íslands uppfull af dæmum um að við höfum farið fram úr okkur í uppsveiflum.