Aðgangur að háskólum verði takmarkaður

Stýra þarf námsframboði í íslenskum háskólum og takmarka frekar aðgang að þeim til að nýta betur fé. Efla þarf kennslu í raunvísindum, verk- og tæknifræði. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr ályktunum Ríkisendurskoðunar í nýlegri skýrslu um kostnað, skilvirkni og gæði háskólakennslu.

 

Norðurlandameistarar í lögfræði og viðskiptafræði

Skýrslan hefur verið talsvert í umræðunni m.a. vegna niðurstaðna í samanburði skólanna og vals á viðmiðum. En ályktanirnar sem Ríkisendurskoðun dregur af athuguninni og ábendingar hennar til stjórnvalda eru einnig afar athyglisverðar. Í umfjöllun um nauðsyn þess að stýra því hvað er í boði fyrir nemendur segir að líta þurfi til þjóðhagslegrar hagkvæmni námsgreina, kostnaði við þær, eðlilegum nemendafjölda og æskilegri dreifingu kennslu milli skóla. Mikilvægt sé að kortleggja þörf samfélagsins fyrir menntað vinnuafl og huga að því hvort rétt sé að efla sérstaklega kennslu í greinum þar sem skortur er á fagmenntuð fólki, svo sem í raunvísindum, verk- og tæknifræði. Vakin er athygli á því hve margir hafa lært viðskiptafræði og lögfræði hér á landi á undanförnum árum. Þeim hefur fjölgað hlutfallslega meira en nemendum í öðrum greinum og er hlutfall þeirra hærra en þekkist annars staðar á Norðurlöndum. Ekki er reynt að stýra nemendafjölda einstakra háskólagreina hér með beinum hætti eins og tíðkast í öðrum löndum. Stjórnvöld þurfa að taka skýrari afstöðu til þess hvernig kennsluframlögum til háskóla er varið segir Ríkisendurskoðun og telur eðlilegt að stefna um stýringu námsframboðs sé sett til nokkurra ára í senn.   

 

Hátt brottfall vandamál

Brottfall er mikið í íslenskum háskólum, en er þó mjög mismunandi eftir háskólum og greinum. Það var á bilinu 43-57% í greinunum sem skoðaðar voru í Háskóla Íslands þar sem það er mest. Brottfall er mun meira hjá ríkisháskólunum en þeim einkareknu. Ríkisendurskoðun segir brýnt að tekið sé á þessum vanda svo fjármagn til háskólanna nýtist sem best og eru nefnd dæmi um mun meiri skilvirkni erlendra skóla sem skoðaðir voru til samanburðar. Ríkisendurskoðun segir að bæði stjórnvöld og stjórnendur skólanna þurfi að leita að leiðum sem duga til að taka á brottfallinu. Og í því samhengi segir ríkisendurskoðun að eðlilegt sé að huga að því hvort takmarka eigi inntöku nemenda frekar en gert er nú t.d. með strangari inntökuskilyrðum eða inntökuprófum. Gera ætti skipulega og ítarlega athugun á kostum þess að takmarka inntöku nemenda, og þær niðurstöður sem þar fást, ættu síðan að fá formlega afgreiðslu réttra aðila.

Sjá nánar:

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um kostnað skilvirkni og gæði háskólakennslu