Á íslensku má alltaf finna svar segir Þórarinn Eldjárn

Á íslensku má alltaf finna svar ... var ort. Og líkast til er það alveg hárrétt, en sennilega ekkert einstakt eða stórmerkilegt ef grannt er skoðað. Ætla má að þetta gildi líka um flest önnur tungumál, sennilega öll.

Ég skildi að orð er á Íslandi til / um allt sem er hugsað á jörðu,
svo kvað Einar Benediktsson um móður sína og mál hennar og sitt, móðurmálið. Það er líka alveg áreiðanlega hárrétt. Eins og oft hefur þó verið bent á er alsiða að fara rangt með þessar línur og segja að orð sé á íslensku til um allt sem er hugsað á jörðu. Ekki er víst að það sé jafn rétt, ekkert mál er nógu fullkomið til að dekka allt, hvorki íslenska né önnur. Það eru skrýtnar gloppur í öllum tungumálum. Við getum ekki orðað það almennilega á íslensku sem Danir kalla „at hygge sig“, Svíar geta ekki talað almennt um kvartettinn afa og ömmur, þeir verða að skipta honum upp í tvo dúetta. Nóbelsnefndin hlýtur að hafa spurt Halldór Laxness: „Amma þín hvað? Þessi fræga amma þín, hvort var hún mormor eða farmor“? Og enskumælandi þjóðir verða að umorða það einhvern veginn að þær nenni ekki einhverju, svo fáein dæmi séu nefnd.

En, vel að merkja, eitt er hugsun og annað tal: Þorsteinn Gylfason bendir rækilega á það í sinni ágætu ritgerð Að hugsa á íslenzku, sem finna má í samnefndri bók hans frá 1996. Þetta sé spurning um að hugsa, ekki endilega tala. Ef skáldið hefði haldið því fram að orð væri á Íslandi til um allt sem er talað á jörðu, þá hefði hann, eins og Þorsteinn orðar það „sem betur fer haft á röngu að standa.“

Þess vegna er það ljóst að Svíar geta án efa hugsað á sænsku um afa og ömmur sem eina heild án ættrakningar og Bretar geta að öllum líkindum hugsað um að þeir nenni ekki einhverju án þess að neyðast til að umorða það með lýsingarorðum og hjálparsetningum.

Oft er talað um það sem alveg sérstakt vandamál hversu fáir kunni og tali íslensku, já, hafi hana sem móðurmál. Að hún sé svo lítil í þessum skilningi. En ef svo er, þá er til dæmis stórveldið latína enn minna mál. Hana talar nákvæmlega enginn. En það er líka hægt að koma gangandi úr þveröfugri átt og benda á að einmitt fámennið sé ekki veikleiki heldur styrkur. Það gerði Sigurður Pálsson í snilldargóðu ávarpi sem hann flutti þegar hann tók við verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn. Hann benti á að einmitt af þessum sökum neyðumst við til að læra erlendar tungur og gerumst þar með iðulega vel læs á og móttækileg fyrir ómældum fjársjóðum annarra menningarheima og -kima. Verðum fyrir jákvæðum áhrifum, moðum úr þeim og spinnum. Það gerir okkur miklu ríkari en marga stórþjóðina sem í stærilæti og sjálfbirgingshætti lokast inni í eigin tungu. Ég nefni engin nöfn. Nomina sunt odiosa.

Hinu er þó ekki að leyna að fámennið kallar yfir okkur vissar og miklar hættur. Þróunin er hröð í tækni nútímans, ekki síst á máltæknisviðinu og í því írafári hefur það gerst að stórfyrirtækjum sem stjórna þeirri þróun þykir ekki arðbært að eltast við það sem þeim finnst vera sérviskulegar mállýskur örfárra steingervinga á hjara veraldar. Þau taka því fagnandi ef steingervingarnir sjálfir gerast þjálir og meðfærilegir og segja að þetta sé bara allt í lagi, þeir séu hvort sem er svo góðir í ensku.

Og fyrst svo er, til dæmis hér hjá okkur, væri þá ekki bara rétt að stíga skrefið til fulls, njóta rakleitt þeirrar gæfu að fá ókeypis aðgang að öllum tækninýjungunum án tungumálshindrana, geta strax sagt höngrí við ísskápinn og flöss við klósettkassann? Væri það ekki frábært fyrir okkur rithöfunda að stíga skrefið til fulls og komast beint inn á alþjóðamarkaðinn eina og sanna? Væri það ekki hollt og gott fyrir æskulýðinn og þar með framtíð þjóðarinnar að við reyndum eftir megni að verða tvítyngd? Hafa ekki sálfræðingar og málfræðingar, sálmálfræðingar og málsálfræðingar sannað að það sé einstaklega þroskandi fyrir heilann og hugsunina að hafa jafngild traustatök á tveimur tungumálum?

Svarið við öllum þessum spurningum er ósköp einfaldlega nei. Við græðum ekkert á því að gera ensku jafnréttháa eða jafnvel hærri en íslenskuna. Nægir ekki bara að benda á að þetta var reynt í vissum fjármálastofnunum í aðdraganda þess örlagaríka árs 2009? Og íslenskir rithöfundar eru miklu betur settir að öllu leyti ef þeir halda sig við móðurmálið. Og ekki bara íslenskir höfundar heldur allir höfundar alstaðar, hver í sínu máli. Hvers vegna? Jú vegna þess að móðurmálið er móðurmálið. Eina málið sem við kunnum nógu vel.

Þorsteinn Gylfason tilfærir orð annars vegar Sveinbjarnar Egilssonar um þetta, sem aðspurður lotningarfyllst um hversu mörg tungumál hann kynni eiginlega svaraði: „Ég kann ekkert mál nema íslensku“. Og svo hinsvegar Einar Benediktsson sem sagði: „ ... ég get ekki séð, að nein líkindi séu til þess, að þeir sömu menn sem geta ekki skrifað íslenzka setningu með íslenzkum orðum muni nokkurn tíma læra að gera það með þeim útlendu“.

Og Þorsteinn dregur þetta saman svona: „Í fæstum orðum virðist mér eina vonin til þess að Íslendingur geti hugsað og skrifað yfirleitt vera sú að hann geti hugsað og skrifað á íslenzku.“

Og þetta að vera tvítyngdur: Jú það er áreiðanlega hollt og gott fyrir heilabúið og málþroskann ef svo vill til að vegna búsetu eða ætternis hafi maður meðtekið tvö tungumál samtímis frá fæðingu. En sá sem heldur að hann geti orðið tvítyngdur á hinn mátann, með því að hleypa síbylju vanefnaenskunnar beint inn á gafl og gera jafnréttháan íslenskunni, sá verður ekki einu sinni eintyngdur eins og við erum þó blessunarlega flest, heldur hálftyngdur og endar svo jafnvel sem ótyngdur.

Á íslensku má alltaf finna svar, mikið rétt, en hvað ef ekki er lengur hægt að spyrja á íslensku? Fær maður þá nokkurt svar yfirleitt?

Af þessum sökum og ýmsum öðrum ber okkur að standa vörð um íslenskuna alstaðar. Ekki af því að hún sé einhver vesalingur og ekki af einhverjum þjóðrembusökum eins og sumir virðast halda, heldur fyrst og fremst af tveimur ástæðum: Í fyrsta lagi af því okkur var trúað fyrir henni og í öðru lagi af því bara. Ég sleppi því að tíunda hagkvæmnissjónarmiðin frekar af því þau eru svo augljós.

Ég ætla að enda mál mitt á rómantískari og tilfinningalegri nótum: Skáld er ég ei en huldukonan kallar. Svo kvað Jónas og við eigum að hlýða því kalli skilyrðislaust og alltaf. Áður en við ákveðum að glutra íslenskunni niður með því tíma ekki að búa hana þeim vopnum sem hún þarf á að halda til að geta gert sig gildandi á öllum sviðum nútímalífs á komandi skálmöld skulum við jafnframt muna það sem Guðmundur Böðvarsson orti um sömu huldukonu í Völuvísu sinni, já, við getum ímyndað okkur að sjálf íslenskan sé hér ljóðmælandinn:

 

Eitt verð ég að segja þér áður en ég dey,

enda skalt þú börnum þínum kenna fræði mín,

sögðu mér það álfarnir í Suðurey,

sögðu mér það dvergarnir í Norðurey,

sögðu mér það gullinmura og gleymmérey

og gleymdu því ei:

að hefnist þeim er svíkur sína huldumey,

honum verður erfiður dauðinn.

 

Andlátið kann að verða hægt og jafnvel snyrtilegt en dauðinn sem á eftir fylgir verður erfiður. Það verður reimt. Reimt af skömmustu, eftirsjá og málleysi."

Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og skáld. 

Flutt á Menntadegi atvinnulífsins 2. febrúar 2017 en dagurinn var helgaður íslenskunni og íslenskri máltækni.

Horfðu á Þórarinn í Sjónvarpi atvinnulífsins: