Vandi í höftum - Rjúfum Íslandsmúrinn: Afnám hafta, hvenær og hvernig?

Sex ár hafi farið í undirbúning afnáms hafta og nú er kominn tími til að láta slag standa. Stöðugleiki ríkir í efnahagslífinu, verðbólga er lág, ríkisfjármál í jafnvægi og afgangur af viðskiptum við útlönd. Efnahagshorfur eru  góðar og spár  gera ráð fyrir myndarlegum hagvexti á komandi árum. Bankakerfið stendur styrkum fótum og skuldastaða heimila og fyrirtækja hefur farið batnandi og er nú svipuð og hún var árið 2004. Erlendir lánamarkaðir hafa opnast, gjaldeyrisforðinn þanist út og vextir á Íslandi eru háir í alþjóðlegum samanburði. Miðað við stöðuna í dag er því allt eins líklegt að við losun hafta muni mæta Íslendingum gjaldeyrisinnflæði frekar en flótti frá krónunni.

Gjaldeyrisforðinn er að þenjast út
Uppbygging gjaldeyrisforða hefur gengið vel síðustu misserin. Frá ársbyrjun 2010 hefur Seðlabankinn safnað ríflega 215 mö.kr. en þar af nema uppsöfnuð gjaldeyriskaup frá ársbyrjun 2014 ríflega 155 mö.kr. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs hefur Seðlabankinn stækkað gjaldeyrisforðann tvöfalt meira en hann gerði á sama tíma í fyrra. Að öðru óbreyttu má áætla að gjaldeyriskaup á þessu ári gætu numið allt að 200 ma.kr.

Ef fram fer sem horfir er því útlit fyrir að í árslok 2015 muni gjaldeyrisforðinn duga til að mæta öllum erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins að viðbættum öllum aflandskrónueignum.

undefined

Hindranir við afnám hafta
Aukið gjaldeyrisinnflæði, léttari afborgunarferill og bætt aðgengi innlendra aðila að erlendum lánamörkuðum hefur dregið úr greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins og auðveldar þar með úrlausn annarra áskoranna. Slíkar áskoranir snúa að útflæði krónueigna til skamms tíma en á endanum ræður efnahagsleg staða og horfur þjóðarbúsins hversu mikið útflæðið verður til lengri tíma litið.

Hindranir við afnám hafta eru í grunninn þrenns konar.  Þær snúa að uppgjöri þrotabúa, að mögulegu útflæði annarra erlendra aðila (hinir svokölluðu aflandskrónueigendur) og að lokum mögulegu útflæði innlendra aðila.  Þrátt fyrir að hægt sé að reikna sig niður á einhverja niðurstöðu um hvert útflæðið gæti orðið við afnám hafta kemur þá verður umfangið aldrei fyllilega ljóst fyrr en á reynir. Umfangið veltur á ýmsum breytum t.a.m. á trú innlendra og erlendra aðila á afnámsferlinu og aðgengi innlendra aðila að erlendum lánamörkuðum.

undefined

Hvað með mögulegt innflæði?
Nafnvaxtamunur við útlönd svipar til þess sem var hér á árunum 2006-2007 þegar vaxtamunarviðskipti stóðu sem hæst. Miðað við stöðuna í dag er því allt eins líklegt að við losun hafta muni koma til verulegs gjaldeyrisinnflæðis. Sex ár hafa farið í að undirbúa afnám og nú er svo komið að hægt er að haka í öll boxin. Aðstæður gætu vart verið betri til að taka af skarið.

undefined

Greining efnahagssviðs SA (PDF)